144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég vil þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðu hans. Ég ætla fyrst að bera niður í þeim orðum hans að honum virtist sem í frumvarpinu fælist einlægur ásetningur um að koma völdum yfir fyrirtækjum til ráðherra og að hann tryði því ekki að nýir þingmenn væru að taka þátt í þeim leik. Ég ætla að fá að spyrja hv. þingmann: Er þetta einlæg trú hans, er það virkilega einlæg trú hans að þetta sé á þennan hátt?

Það er tvennt sem skiptir máli í frumvarpinu og það hefur komið vel fram í umræðunni. Það er annars vegar armslengdarsjónarmiðið, sem Bankasýslan hefur sannarlega haft með höndum og nú á ráðgjafarnefnd að leysa hana af hólmi og gæta armslengdarsjónarmiðsins. Ég vil spyrja hv. þingmann um ráðgjafarnefndina. Hæstv. ráðherra færði ágætisrök fyrir því að verið væri að minnka umsýsluna í kringum eignarhlutina, það er stjórn í Bankasýslunni og starfsmenn og ráðgjafarnefndin á að leysa hana af. Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um ráðgjafarnefndina, að hún skuli vera sjálfstæð í störfum sínum og birta starfsreglur sínar opinberlega. Getur hv. þingmaður með engu móti séð, t.d. með einhvers konar breyttu fyrirkomulagi um staðsetningu nefndarinnar eða skipan, jafnvel hvernig hún er skipuð, að hægt sé að gæta ýtrustu (Forseti hringir.) armslengdarsjónarmiða?