144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og segi það hér og nú að það er minn einlægi ásetningur að fara yfir þetta frumvarp með það í huga að bæta úr ef og þar sem það á við. Við ræddum armslengdarsjónarmiðið og mér þætti vænt um ef hv. þingmaður svaraði mér hvort hann sjái möguleika á því að breyta einhvers konar fyrirkomulagi um staðsetningu nefndarinnar þannig að ýtrustu armslengdarsjónarmiða verði gætt.

Hið seinna er að söluferli og meðferð eignarhluta, ef og þegar til þess kemur að þeir verða seldir, sé opið og gagnsætt, þannig að það traust og trúverðugleiki sem hv. þingmaður ræddi sé með sem besta móti.

Hér er í 8., 9., 10., 11., 12., 13. gr., eða 12. gr., kveðið á um að Ríkiskaup eigi að fara með sölu. Ríkisendurskoðun á að hafa eftirlit, ráðherra (Forseti hringir.) þarf að skila skýrslu til efnahags- og viðskiptanefndar og hv. fjárlaganefndar, (Forseti hringir.) umsögn Seðlabankans. Hvað vill hv. þingmaður sjá meira? (Forseti hringir.) Er þetta ekki opið og gegnsætt?