144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst dálítið einkennandi núna á mjög mörgum málum sem koma inn í þetta þing, stórum og mikilvægum málum, að ljóst er frá upphafi að ekki er samstaða um þau millum ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er eitt þeirra mála sem við höfum eytt miklum tíma í að ræða. Þetta er mál þar sem okkur í stjórnarandstöðunni er mikið niðri fyrir, vegna þess að við höfum áhyggjur af því hvaða afleiðingar málið kann að hafa og vegna þess að ljóst er að ekki er samstaða um það í stjórnarmeirihlutanum. Samt sem áður halda menn því til streitu að eyða tíma okkar í þinginu við að ræða málið vitandi það að ekki eru endilega miklar líkur á því að það verði einu sinni afgreitt hérna.

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort menn þurfi ekki að taka skref til baka og ríkisstjórnarflokkarnir fari að skipulegga sig aðeins, fari yfir það á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi hvaða mál það eru sem þeir telja sig þurfa að koma í gegn, hvaða málefni það eru sem þeir vilja (Forseti hringir.) koma í gegn og ræða við okkur í stjórnarandstöðunni um það hvernig þeir (Forseti hringir.) ætla að gera það.