144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[23:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil lýsa óánægju minni með að þetta mál sé tekið hér inn á dagskrá yfir höfuð þar sem það virðist vera svo mikill ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um það. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsti því yfir í ræðu sinni þegar hann talaði um að hann teldi ótímabært að leggja Bankasýslu ríkisins niður að ef til vill væri hægt að leysa þann ágreining í þeirri nefnd sem málið færi til. Þá spyr maður sig: Í hvorri nefndinni eru meiri líkur á að menn séu það góðir sáttasemjarar að þeir nái að leysa úr ágreiningi stjórnarflokkanna um málið? Ég tel mjög slæmt að ekki sé hægt að mæla fyrir þeim þingmálum sem eru á dagskrá, sem sagt þingmálum sem þingmenn hafa lagt fram, og að dýrmætum tíma þingsins sé eytt í þetta (Forseti hringir.) mál sem lítil sátt er um.