144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

aðkoma ríkisins að lausn vinnudeilna.

[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeim jákvæða tón sem ég heyri hér í fyrsta skipti í þó nokkuð langan tíma varðandi það að taka höndum saman til þess að leysa þessi mál. Ég nefni sem dæmi að þegar við vorum að létta sköttum af launþegum fyrir tveimur árum síðan þá var það alltaf reiknað í pítsusneiðar og sagt að það skipti engu máli. En við erum auðvitað að vinna áfram að breytingum, m.a. á skattkerfunum til þess að styðja við áframhaldandi kaupmáttaraukningu launþegahreyfingarinnar í landinu, hvort sem launþegar eru á almenna eða opinbera markaðnum.

Staðan í augnablikinu er þessi: Við höfum enga beina aðkomu að viðræðum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ. Þar á milli aðila er engin ákveðin krafa gagnvart ríkinu um tilteknar aðgerðir. Ég kannast við þá málaflokka sem hér eru nefndir eins og húsnæðismálin og við höfum rætt um hækkun leigubóta. Félagsmálaráðherra hefur farið fyrir þeirri umræðu. Við höfum rætt um breytingar á skattkerfinu, þær eru enn þá á dagskrá. En á meðan þessir aðilar eru ekki með sameiginlegar áherslur í viðræðum við ríkið er erfitt að koma fram og eiga frumkvæði að einhverri lausn.

Vandinn liggur meðal annars í því að hjá launþegahreyfingunni er engar sameiginlegar áherslur. Þær eru ýmist um hækkun lægstu launa, eða að menntun eigi að vera metin til launa, eða það þurfi að draga úr yfirvinnu og færa yfir á dagvinnutíma, eða eitthvað annað. Menn verða að koma sér saman um einhverjar megináherslur til að sé hægt að færa fram lausnir sem byggja á beinni aðkomu ríkisins.

Það stendur ekkert á ríkisstjórninni að hlusta eftir kröfum og við höfum átt fjölmarga fundi og höldum áfram að halda slíka fundi fyrir utan að eiga beinar viðræður við þá sem eru núna í verkfallsaðgerðum á opinbera sviðinu. Þar er sannarlega,(Forseti hringir.) eins og hv. þingmaður nefnir, ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því úti í hvers konar óefni aðgerðirnar eru komnar.