144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

staðan á vinnumarkaði og samráð.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Já, það er sjálfstætt vandamál að það ríkir lítið traust í samfélaginu aðila á milli, það gildir bæði um launþegahreyfinguna og atvinnurekendur að því er mér sýnist. Við þurfum ekkert að spyrja okkur tvisvar að því hvort gildi í garð Alþingis, eftir atvikum einstakra stjórnmálamanna o.s.frv. Við verðum að vinna það traust til baka eitt skref í einu. Það sem ég er að benda á er að við höfum alveg einstakar aðstæður til þess að halda þessari vegferð áfram í átt til bættra lífskjara. Það er í mínum huga ekki innstæða fyrir þessum gríðarlegu átökum á þeim forsendum sem lagt er upp með. Það er heldur ekki innstæða fyrir kröfum um 50–100% launahækkanir eins og einstaka aðilar komu með að borðinu að þessu sinni. Það þarf að ná einhverri ró og meiri skynsemi. Það þarf að ná meiri samstöðu um heildaráherslur. Ef menn væru nú bara að tala um það að hækka lægstu launin þá væri þetta allt miklu einfaldara, ekki satt? En það er bara ekki þannig. Menn koma algjörlega sundraðir að borðinu með ýmsar kröfur. Sumir leggja áherslu á húsnæðismál eins og hér hefur verið nefnt (Forseti hringir.) áður, aðrir leggja áherslu á (Forseti hringir.) skattamál, þriðju vilja að menntun sé metin (Forseti hringir.) til launa, fjórði hópurinn vill að lágmarkslaun séu 300 þús. kr., fimmti vill að þau séu 400. Ég hef líka heyrt að lágmarkslaun eigi að vera 600 þús. kr.