144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

kjaradeilur og breyting á skattkerfi.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ef það væri svo að tekjulægri hóparnir hefðu setið algerlega eftir á undanförnum árum í kaupmáttaraukningunni þá væri kannski einhver innstæða fyrir þessari ræðu og einhver innstæða fyrir þeim orðum að ríkisstjórnin væri úrræðalaus og væri búin að gefast upp á því verkefni. En staðreyndin er sú að kaupmáttur þeirra sem eru í lægri launabilunum hefur verið að vaxa hraðar en annarra.

Það gerist vegna þess að við höfum verið að afnema skerðingar bóta. Það gerist vegna þess að við höfum lækkað skatta í lægsta þrepinu og hækkað viðmiðunarmörkin yfir 300.000 — fólk fór í milliskattþrepið í 240.000 kr. hjá vinstri stjórninni, því breyttum við. Við lækkuðum líka milliskattþrepið þar sem margir sem eru langt undir meðallaunum eru að greiða skatt og færðum með því 5 milljarða út til launþega. Sama vorum við að gera um síðustu áramót þegar við drógum úr álögum. Þetta hefur verið meðal þess sem við höfum verið að gera til að auka kaupmátt.

Mætti ég síðan nefna það átak, sem við höfum nú klárað, að rétta hlut (Forseti hringir.) þeirra sem lentu illa í verðbólgunni og báru verðtryggðar húsnæðisskuldir? 80 milljarðar hafa farið í það sem hefur leitt (Forseti hringir.) til þess að nú eru skuldir heimilanna (Forseti hringir.) komnar aftur í sambærilega stöðu og þær voru árið 2004 sem hlutfall (Forseti hringir.) af vergri landsframleiðslu. Þetta eru aðgerðir sem eru til þess að létta undir með fólki.