144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

náttúrupassi.

[15:35]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Lýsing þingmannsins á þessu ágæta máli var ákaflega dramatísk. Ég er nánast algerlega ósammála þessari lýsingu og útleggingu þingmannsins. Burt séð frá því þá dagaði náttúrupassinn uppi í atvinnuveganefnd. Það er staðreynd málsins og mér þykir það miður að sjálfsögðu vegna þess að ég hafði og hef trú á þessari leið til tekjuöflunar en það náðist ekki samstaða um hana og það er staðreyndin í málinu.

Hv. þingmaður sagði að hann teldi að hægt væri að ná niðurstöðu um einhverja aðra leið. Hann nefndi komugjöld, gistináttagjald, bílastæðagjöld. Ég hvet hv. þingmann til að lesa þær umsagnir sem fram komu í málinu vegna þess að ef það er eitthvað sem kom fram þá var það að menn voru ekki að leggja til neina eina leið sem almenn samstaða var um. Því miður hefur það verið staðreyndin um þetta viðfangsefni í allt of langan tíma og þess vegna var það til dæmis óleyst eftir að hv. þingmaður var búinn að vera við stjórnvölinn í mörg ár — það var skilið eftir óleyst vegna þess að það er erfitt að ná samstöðu um þetta mál.

Það sem við erum að vinna að núna er það mikilvægasta í þessu öllu saman, viðfangsefnið fer ekkert í burtu frá okkur. Ríkisvaldið þarf að axla ábyrgð á þeim stöðum sem eru í eigu og umsjón ríkisins. Það er það sem við munum gera. Í millitíðinni, eða frá því að þetta mál hófst, hafa verið gerðar ýmsar breytingar á virðisaukaskattskerfinu, eins og þingmaðurinn þekkir, þar á meðal að fella niður undanþágur (Forseti hringir.) og taka fleiri þjónustuþætti í ferðaþjónustunni inn í … (Forseti hringir.) sem gefur frekari tekjur sem nýttar verða til að standa straum (Forseti hringir.) af innviðauppbyggingu vegna ferðamanna.