144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

náttúrupassi.

[15:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur í raun og veru ekki á óvart að hæstv. ráðherra komi hingað í ræðustól og fari að tala um að málið hafi dagað uppi einhvers staðar annars staðar en hjá henni sjálfri. Hér kom það skýrt fram að hæstv. ráðherra skilar algerlega auðu í þessu máli. Uppgjöf, hún hefur gefist upp á málinu. Er það þvermóðska? Já, að hluta. Er það meinbægni gagnvart gistináttagjaldinu sem komið var á á síðasta kjörtímabili, 100 kr., sem gefur 265 millj. á ári? Já, það held ég.

Það er meira undir en þetta. Það eru líka skilaboð til markaðarins um hvað við ætlum að gera árið 2016, 2017. Nú er árið 2016 farið og mér sýnist að kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar renni út án þess að ráðherra geti komið máli í gegnum þingið og komið því á sem mjög mikil sátt var um í sal Alþingis meðal þingmanna allra flokka, en það er ekki tillagan (Forseti hringir.) sem hæstv. ráðherra valdi illu heilli. Hún valdi vitlausustu og verstu leiðina (Forseti hringir.) og heldur sig við það vegna þvermóðsku í staðinn fyrir að útfæra gistináttagjaldið (Forseti hringir.) og hækka það upp í 400 kr. Þá væri heildarupphæðin komin sem hún ætlaði að ná í með hinum óskilgreinda, illa útfærða náttúrupassa.