144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

tollar og matvæli.

727. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrirkomulag á útboði innflutningstolla virðist andstætt hagsmunum neytenda. Dæmi er um að einstaka fyrirtæki hafi til dæmis keypt 90% af öllum tollkvóta með alifuglakjöt sem hlýtur að teljast bæði samkeppnishamlandi og getur hugsanlega leitt til brota á samkeppnislögum.

Þetta kemur einnig fram í skýrslu frá Samkeppniseftirlitinu um opnun markaða og uppbyggingu í íslensku atvinnulífi, með leyfi virðulegs forseta: „Tilhögun og framkvæmd við úthlutun tollkvóta rýrir möguleika nýrri og smærri keppinauta að hasla sér völl.“ Þannig sé dregið úr samkeppni og þar með úr ábata neytenda af henni.

Erlendar landbúnaðarvörur eru gjarnan ódýrari en þær sem eru framleiddar hér á landi og á frjálsum markaði mundu neytendur geta valið á milli innlendra vara eða erlendra að teknu tilliti til verðs og gæða. Og ég endurtek: Að teknu tilliti til verðs og gæða. Ég er jafn viss um það og margur annar að Íslendingar mundu frekar velja innlenda vöru vegna gæða. Núverandi fyrirkomulag kemur hins vegar í veg fyrir þetta val því að þeir sem hyggjast flytja inn landbúnaðarvörur verða að greiða hátt verð fyrir innflutningskvóta og hefur komið í ljós að verð þessa kvóta hefur hækkað töluvert undanfarin ár. Þess vegna verður í sumum tilfellum verðmunur sem ella væri á landbúnaðarafurðum að engu. Þess vegna segi ég: Þetta kerfi hefur augljóslega gengið sér til húðar og það sést best á því að héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að útboðsgjaldið sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrar í gegnum tíðina hafa innheimt fyrir innflutningskvóta á búvörum sé ólögmætt og stangist á við stjórnarskrána. Dómurinn telur að útboðsgjaldið sé skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Að öðru því tengdu þá hefur Samkeppniseftirlitið gefið út skýrslu um leiðbeiningar til stjórnvalda, sem í mörgum tilvikum hafa látið undir höfuð leggjast að taka tillit til tilmæla Samkeppniseftirlitsins, og það tengist tollum, marktollum og verðtollum sem enn eru í gildi og eru háir. Ég er ekki í því tilliti að tala um verndartolla, þeir eru um það bil 2 milljarðar á ári, en aðrir tollar á matvörur sem ekki eru verndartollar eru sömuleiðis 2 milljarðar á ári.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra tveggja spurninga. Sú fyrri hljóðar svo: Hefur verið til athugunar að breyta eða hverfa frá útboðsgjaldi fyrir tollkvóta vegna innflutnings á búvörum? Hefur verið til athugunar að breyta magntollum og verðtollum sem lagðir eru á innflutt matvæli?