144. löggjafarþing — 103. fundur,  11. maí 2015.

intersex.

731. mál
[16:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda kærlega fyrir að vekja máls á þessu. Ég vænti þess að það komi fram þingmál hér þegar fram líða stundir og ég vænti þess að samstaða verði á þessu þingi um þau mál, af því að það er ekki í lagi hvernig málin eru núna.

Það lítur þannig út að litið sé á órætt kyn sem vandamál af samfélagslegum ástæðum, ekki af læknisfræðilegum ástæðum í hefðbundnum skilningi. Það er álit annarra á því fólki sem fæðist með órætt kyn sem er vandamálið, það er ekki óræða kynið sjálft. Ég hef hitt ansi marga af óræðu kyni og enginn þeirra er hlynntur því að gerðar séu skurðaðgerðir á börnum til þess að gera þau venjuleg í skilningi samfélagsins. Það er ekki sjúkdómur að vera öðruvísi og læknisfræðileg inngrip til þess að gera fólk venjulegt í skilningi samfélagsins eru óréttlætanleg.