144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Giftuleysi ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að því að byggja samstöðu í samfélaginu, ríður ekki við einteyming. Hér komum við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna áðan upp hver á fætur öðrum og buðum samvinnu um lausn á fordæmalausum átökum á vinnumarkaði. Hæstv. fjármálaráðherra lagði þá lykkju á leið sína til þess að hnýta í forustu verkalýðshreyfingarinnar. Núna er ríkisstjórnin búin að ákveða að setja á dagskrá eitt erfiðasta deilumálið sem uppi hefur verið í samfélaginu áratugum saman og reynir að rjúfa sátt sem hefur myndast um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Fruntagangur ríkisstjórnarinnar í þessu efni er nú slíkur að hún hefur komið í veg fyrir að tillaga sem hefði verið samþykkt hér í haust, og væri farið að vinna eftir, væri samþykkt og í staðinn er hún búin að setja allt þetta starf í fullkomið uppnám.

Það er algjörlega fráleitt að ekki eigi að ræða húsnæðismál sem skipta þjóðina miklu. Hvar eru málin sem varða afnám gjaldeyrishafta og þessi ríkisstjórn grobbar (Forseti hringir.) sig af reglulega að sé að fara að koma en koma aldrei hingað inn í þingið? Af hverju eru ekki lögð fram mál sem varða (Forseti hringir.) heimilin í landinu?