144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Manni fallast eiginlega hendur. Er það ekki að koma í ljós að það er einlægur og markviss ásetningur stjórnarmeirihlutans að efna til ófriðar, að efna til deilna í samfélaginu? Það hlýtur að vera. Hér blasir við að deilurnar um hvað virkja eigi og hvað eigi að vernda á Íslandi eru einhverjar þær erfiðustu sem þessi þjóð á í og hefur átt í um árabil. Það tók mjög langan tíma að hanna umgjörð utan um það hvernig við ætlum að leiða þessa deilu til lykta, hvernig við ætlum að haga okkur í þessu umhverfi, sú umgjörð heitir lög um rammaáætlun. Þau voru samþykkt hérna einróma. Núna liggur fyrir að meiri hlutinn ætlar að ganga algjörlega á svig við þessi lög og kemur með breytingartillögu við þingsályktun (Forseti hringir.) sem felur í sér að umdeildir virkjunarkostir fara (Forseti hringir.) í nýtingarflokk. Það er ekkert hægt annað en að (Forseti hringir.) mótmæla því. Við munum verja það og þess vegna er mikilvægt að mótmæla því vegna þess að það er ekki annað hægt í ástandi þar sem annar eins ófriður ríkir á vinnumarkaði. Til hvers?