144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Forseti. Allt er hægt að leysa ef fólk er tilbúið til þess að ræða saman. Var það reynt í þessu tilfelli? Hafa menn sest niður hér, stjórn og stjórnarandstaða, og reynt að finna lendingu þegar kemur að rammanum sem allir vita að er mjög heitt deilumál? Nei. Var haft samráð við stjórnarandstöðuna um það hvernig þessu máli mundi vinda fram í þinginu? Var gefinn kostur á því að menn hefðu einhverjar skoðanir á því? Var efnt til einhvers samtals um það hvernig við gætum leyst þetta? Var ekki verið að bjóða það af hálfu stjórnarandstöðunnar áðan að menn mundu reyna að setjast yfir þær deilur sem eru á vinnumarkaði og leysa þær í sameiningu og búa til einhvers konar pakka sem hægt væri að bjóða upp á þannig að menn kæmu samstilltir til leiks í þeim efnum? Jú, það var verið að því. Þá velur ríkisstjórnin þennan leik.

Ég tek eftir því í þessari umræðu sem er um fundarstjórn forseta um þetta efni að u.þ.b. helmingur stjórnarmeirihlutans hefur kosið að fara úr salnum frekar en að eiga í þessu samtali, (Forseti hringir.) allur ráðherrabekkurinn tæmist um leið og menn fara að ræða þetta. Menn vilja ekki taka samtalið. (Forseti hringir.) Menn kjósa alltaf ófriðinn ef hann er í boði.