144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson missir kannski af höfuðpunktinum sem er auðvitað sá að það eru deilur um þessi efni. Það er aðalpunkturinn. Þess vegna er fráleitt að henda þessu máli inn á dagskrá á morgun, vitandi vel að það eru deilur um það, hafa verið árum saman og verða það væntanlega árum saman, þegar við erum í þeirri stöðu að horfa framan í kjaradeilur. Það er heili punkturinn. Það er ástæðan fyrir því að við stöndum hér undir liðnum um fundarstjórn forseta og bendum á þetta.

Það þýðir ekkert að þræta fyrir það að samhugur var á þingi um að hafa skýrt ferli um þetta. Ef það þarf að laga það ferli vegna þess að menn koma sér ekki saman um hvað það þýðir, gott og vel, lögum það þá frekar en gera það sem nú á að gera af hálfu hv. atvinnuveganefndar undir stjórn hv. þm. Jóns Gunnarssonar. En þetta er umræða sem við tökum væntanlega á morgun. En við munum þurfa að taka þessa umræðu í mjög langan tíma vegna þess að hér ríkir engin sátt um þetta. Þess vegna eigum við að vera að (Forseti hringir.) einbeita okkur að því vandamáli sem er hvað mest aðsteðjandi, sem er deilurnar á vinnumarkaði, (Forseti hringir.) virðulegi forseti. Það á að vera forgangsatriði. Það er það sem við ættum að vera að tala um. Það er heili punkturinn.