144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nú að gerast í íslenskum stjórnmálum að Sjálfstæðisflokkurinn, sem naut 40% fylgis áratugum saman, er að festast í fjórðungsfylgi. Framsóknarflokkurinn tapar fylgi á milli skoðanakannana, í hvert einasta skipti. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts í samfélaginu; forsætisráðherrann ekki.

Ég spyr, virðulegi forseti: Er einhver hissa? Hér erum við að gera athugasemdir við það að í stað þess að tala um ófremdarástand á vinnumarkaði þá standi til að henda hér inn umræðu um mesta átakamál samtímans, rammaáætlun. Þá gerist hvað? Þá kemur hingað talsmaður sundrungar og átaka, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og snýr út úr öllu sem hér er sagt.

Virðulegur forseti. Er einhver hissa á því að umboð þessarar ríkisstjórnar skuli vera á þrotum? (Forseti hringir.) Er einhver hissa á því?