144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

áherslumál ríkisstjórnarinnar.

[16:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég held að það vanti eitthvað mikið upp á verkstjórn hjá þessari ríkisstjórn. Nú þegar svo fáir dagar eru eftir af þinginu mundi maður ætla að menn einbeittu sér að því að forgangsraða og taka hér mál á dagskrá sem væri sátt um, sem eru nokkuð mörg tilbúin úr nefndum. Nei, það gera menn ekki. Út af hverju ætli það sé? Er það kannski út af því að stjórnarflokkarnir eru ekkert sammála um hvaða mál þeir ætla að setja í forgang? Enn eru húsnæðisfrumvörpin föst í fjármálaráðuneyti, stóra kosningaloforð Framsóknarflokksins sem gæti kannski verið innlegg í kjaraviðræður, hver veit? Allt er þetta sett í frost. Til þess að hafa eitthvað á dagskrá þingsins skal það vera mál sem örugglega setur allt á hliðina. Ef það er ekki brennivín í búðir — menn gáfust upp á því — þá er komið með mál sem þeir vita (Forseti hringir.) að þeir komast hvorki lönd né (Forseti hringir.) strönd með. Við segjum stopp, hingað og ekki lengra.