144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal játa að ég hef ekki hugleitt það vel hvert ég telji vera rétta fyrirkomulagið til framtíðar, ég mundi vilja heyra valkosti sem væru þar í stöðunni. En ég tek undir það með hv. þingmanni að það er ekki tími núna til að leggja niður Bankasýsluna. Ég kem ekki auga á þau rök að hún komi ekki til með að standast tímans tönn að einhverju leyti alla vega inn í framtíðina. Þar er ég algerlega sammála hv. þingmanni.

Hv. þingmaður dregur markalínu á milli sölu eignarhluta ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka og að einhverju leyti í Landsbanka annars vegar og hins vegar þess að selja Landsbankann að öllu leyti. Mín lína liggur á aðeins öðrum stað eins og ég gerði grein fyrir hér áður. Ég dreg mína markalínu við Landsbankann. Ég tel að hann eigi að vera í eign samfélagsins.

Ég tek líka undir það með hv. þingmanni að við hljótum að horfa til þess, varðandi söluna á eignarhlutnum í Arion og Íslandsbanka, hvenær hagstætt er að gera þetta. Við skulum ekki gleyma því að þessir bankar eru að skila okkur, eignarhlutur okkar, miklum peningum. Það má ekki horfa fram hjá því. Þess vegna er ákafinn hjá ýmsum að komast yfir eignarhaldið á þessum gullkúm.