144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina. Mig langar að spyrja hann um 4. gr. sem hann gerir að umtalsefni sem er áþekk 2. gr. núgildandi laga um Bankasýslu þar sem kveðið er á um, með leyfi forseta:

„Með yfirstjórn Bankasýslu ríkisins fer þriggja manna stjórn sem fjármálaráðherra skipar. Einn varamaður skal skipaður með sama hætti. […] Fjármálaráðherra skipar formann og varaformann og ákveður þóknun stjórnarmanna.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hver sé munurinn á núgildandi lögum um það hvernig fjármálaráðherra skipar stjórn Bankasýslunnar og því sem segir í 4. gr. í sambandi við þá ráðgjafarnefnd sem fyrirhugað er að skipa.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann sat í ríkisstjórn í það minnsta tvisvar á síðasta kjörtímabili. Lög um Bankasýsluna voru sett 18. ágúst 2009. En á bls. 6 í frumvarpinu um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum kemur fram að Arion banki var alfarið í eigu ríkisins fram til nóvember 2009 og Íslandsbanki sömuleiðis. Hins vegar kom Bankasýsla ríkisins hvergi að því þegar þessir bankar voru afhentir kröfuhöfum. Stundum hefur verið talað um einkavæðinguna hina síðari. Því vil ég spyrja hv. þingmann sem sat þá, að ég tel, í ríkisstjórn: Hvers vegna fór ekki Bankasýslan, ef hún er svona mikils virði í dag, með bæði málin, Arion banka og Íslandsbanka, þar sem hún hafði verið sett á laggirnar 18. ágúst 2009 þegar ríkið ákvað að afhenda kröfuhöfum Arion banka og Íslandsbanka í nóvember 2009?