144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að halda því fram og held því ekki fram í ræðu minni að allt sem áður var hafi verið algott, aldeilis ekki. Ef það er eitthvað sem er gagnrýni vert í skipan Bankasýslunnar gagnstætt þeim anda sem ég kalla eftir þá eigum við að breyta í þá áttina en ekki hina. Ég hygg að meginmunurinn á Bankasýslunni og þeirri nefnd sem nú er lagt til að verði sett á laggirnar sé sá að samkvæmt lögunum, ef ég kann þau rétt, þá er svokölluð armslengdarfjarlægð á milli Bankasýslunnar og fjármálaráðherra. Það er kveðið á um hvernig þessi samskipti skuli vera, hvernig þeim skuli háttað og í því liggur grundvallarmunur.

Nú vil ég gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns. Er hún á því máli að við eigum að reyna að styrkja fjarlægðina á milli hinnar ráðgefandi nefndar, eða hvaða nafni sem við nefnum hana, og ráðherra eða vill hún ganga í gagnstæða átt?