144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sit ekki fyrir svörum heldur er ég í andsvari við hv. þingmann og óska eftir að hann svari þeim spurningum sem ég beini til hans. Ég vil því beina spurningu minni aftur til hans. Hvers vegna telur hann að Bankasýslan hafi ekki komið að þessum stóru málum þegar Arion banki og Íslandsbanki voru fluttir frá ríkinu í nóvember 2009 og Bankasýslan stofnuð í ágúst 2008? Hv. þingmaður sat þá í ríkisstjórn þannig að honum hlýtur að vera kunnugt um hvers vegna Bankasýslan fór ekki með þessi mál.

Sömuleiðis vil ég spyrja hv. þingmann: Hvaða mál hefur Bankasýslan unnið að frá því hún var stofnuð í tengslum við fjármálafyrirtæki? Ekki hafði hún SpKef og SPRON. Hvaða minni sparisjóðir vítt um landið hafa þá verið á hendi Bankasýslunnar (Forseti hringir.) sem gerir það að verkum að hún er svona mikilvæg stofnun með mikla þekkingu sem ekki má hrófla við?