144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:36]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég skil þetta mál þá er það á þá lund að með þessum breytingum verði nálægðin á milli ráðgjafanna og fjármálaráðherrans meiri. Ég skil það þannig að dregið verði úr þeirri fjarlægð sem kölluð hefur verið armslengdarfjarlægð, sem þó var við lýði varðandi Bankasýsluna. Það kann að vera rétt að stjórn Bankasýslunnar sé skipuð af fjármálaráðherra án tilnefningar. En þá spyr ég: Er ekki ráð að breyta því? Er ekki ráð að ganga þá frekar í hina áttina og auka sjálfstæði þeirra aðila sem eru ráðgefandi í þessum efnum?

Við erum að tala um gríðarlegar eignir og öll samskipti stjórnmálanna og afskipti af þessum miklu eignum þurfa að vera vel gagnsæ og hafin yfir öll álitamál. Ég held að það sé öllum til hagsbóta að svo sé. Mín áhersla er sú að við reynum að ganga í hina áttina og gera þessa stjórnsýslu sem sjálfstæðasta gagnvart hinu pólitíska valdi.