144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má alveg vera sjónarmið og þá skulum við bara ræða það. En það hefur ekkert með Bankasýsluna að gera, það hefur ekkert með þetta frumvarp að gera. Hv. þingmaður var í síðustu ríkisstjórn. Hann veit alveg að tveir risasparisjóðir voru bara teknir, þeir fóru ekkert inn í Bankasýsluna. Hver sá sem les rannsóknarskýrslu um sparisjóðina veit það. Þá ákvað þáverandi ríkisstjórn bara að sleppa því að nota þessa stofnun. Síðan kom stofnunin líka með tillögur um meðferð sparisjóðanna — ekkert var farið eftir því, ekki neitt. Þannig að Bankasýslan er ekki tæki til neinnar armslengdar.

Gagnsæi? Ekkert. Ég þekki það. Ég var í hv. viðskiptanefnd og ég veit alveg hvernig gekk að fá upplýsingar. Ekkert gagnsæi. Þannig að Bankasýslan hefur ekkert með þetta að gera.

Ef menn eru á þeirri skoðun að ráðgjafarnefndin tilnefni eða komi að með einhverjum öðrum hætti — það er að vísu gert ráð fyrir í þessu frumvarpi að margir aðilar komi að, Seðlabankinn og ýmsir aðrir, þetta er allt rakið hérna í frumvarpinu. Ef menn vilja bæta í það þá er bara sjálfsagt að fara yfir það, (Forseti hringir.) en menn eiga ekki að tala um Bankasýsluna eins og menn hafa gert hér því að það er á fullkomnum misskilningi byggt. Hver veit það betur en hv. þingmaður sem var í síðustu ríkisstjórn? Enginn.