144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fara nokkuð hörðum og hastarlegum orðum um Bankasýsluna hér áðan, ásakaði hana um að þar væri ekkert gagnsæi og að efnahags- og skattanefnd hefði ekki getað fengið neinar upplýsingar frá henni á sínum tíma. (GÞÞ: … Ég er að ásaka síðustu ríkisstjórn sem þú varst í.) Mér fannst hv. þingmaður tala með þeim hætti að það hefði verið erfitt fyrir efnahags- og skattanefnd að fá upplýsingar í gegnum Bankasýsluna um gang mála. (GÞÞ: … ríkisstjórnina.) Þá er það bara misskilningur hjá mér og ég bið bæði hv. þingmann og Bankasýsluna afsökunar á því.

Ég ætlaði að nefna það sérstaklega að hér flutti hv. þm. Frosti Sigurjónsson alveg prýðilega ræðu fyrir nokkrum dögum um Bankasýsluna og greindi einmitt frá því að hann teldi að sú stofnun hefði mikið vit á þeim hlutum sem hún á að véla um, hún hefði mörgum sinnum komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd til þess að gefa þar upplýsingar og það hefði verið ákaflega gagnlegt.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hefur komið fram í ýmsum andsvörum af minni hálfu, að það sé ekki heillaför sem menn eru að leggja í að breyta umbúnaði utanumhalds á eign ríkisins í bönkum og sparisjóðum með þeim hætti sem hér er verið að gera. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að enn er mikið óunnið í þessum efnum. Það sem skiptir verulega miklu máli, og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson mætti kannski svara mér því hér á eftir, er: Hvers vegna eru menn að hverfa frá fyrirkomulagi sem er við lýði og var tekið upp í öllum löndum Evrópu þar sem bankar hrundu 2008? Það hefur alls staðar gengið ákaflega vel og sjónarmiðið hefur alltaf verið hið sama, að skapa fjarlægð á milli hins pólitíska valds og eignarhaldsins og fjármálalífsins.

Við Íslendingar vitum af heldur beiskri reynslu, svo ekki sé meira sagt, að nábýli pólitísks valds og fjármálalegs valds er eitrað. Það var að stórum hluta ástæðan fyrir því hvernig fór fyrir okkur á sínum tíma. Þetta er allt saman rakið í þeirri skýrslu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur margsinnis vísað í, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Á sínum tíma var þetta tekið upp. Þegar frumvarpið var lagt fram um að Bankasýslan skyldi stofnuð var sérstaklega vísað til úttektar í greinargerð með frumvarpinu, sem OECD hafði gert, sem sýndi fram á það með nokkuð skýrum sögulegum dæmum að það væri óæskilegt að hafa á hendi sama ráðuneytis annars vegar lagasetningu og reglusetningu með mörkuðum þar sem á að selja tiltekna þjónustu og hins vegar eignarhald í fyrirtækjum sem væru að selja þessa þjónustu. Þetta liggur alveg skýrt fyrir. Þetta var sem sagt lagt fram á grundvelli langrar alþjóðlegrar reynslu. Ég man ekki betur en að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi verið á sínum tíma í hópi þeirra sem skrifuðu undir nefndarálit og fjölluðu um þetta og hafði ekkert við það að athuga.

Bankasýslan er aðferð til þess að halda utan um þá eign sem ríkið á í bönkum og sparisjóðum og afsetja þá þegar að því kemur á réttum tíma. Ég get ekki annað en dáðst að því þegar ég horfi yfir feril Bankasýslunnar að hún hefur haft mjög skýra og skarpa stefnu sem ekki allir hafa alltaf verið hrifnir af. Hún hefur haft þá stefnu að selja ekki hlutina að svo stöddu heldur bíða eftir því að réttur tími renni upp sem er hagstæður til sölu, en hún hefur hins vegar lagt áherslu á arðinn og að sækja tekjur í gegnum arðinn. Hvernig hefur Bankasýslu ríkisins orðið ágengt, herra forseti? Hún hefur á þeim tíma sem hún hefur starfað endurheimt um 40% af tæplega 150 milljarða kr. upphaflegu fjárframlagi ríkissjóðs til viðskiptabankanna. Þetta hefur hún gert án þess að hafa selt eitt einasta hlutabréf vegna þess að áhersla stofnunarinnar hefur verið á arðgreiðslur frekar en sölu hlutabréfa. Á þessum tíma hafa bréfin hækkað allverulega. Það er því ekki hægt að segja annað en að sú íhaldssama stefan sem Bankasýslan hefur fylgt hafi gengið ákaflega vel.

Bankasýslan er þannig upp byggð að ráðherrann hefur enga heimild til þess að grípa inn í störf hennar. Lög og reglur banna bókstaflega hæstv. fjármálaráðherra að tala við Bankasýsluna. Ef hann kýs að koma hugmyndum eða tillögum á framfæri við hana verður hann að gera það skriflega. Samkvæmt lögunum verður Bankasýslan þá þegar að gera efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd þingsins viðvart um það. Þar með er það orðið opinbert. Þetta skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli. Samkvæmt núgildandi lögum getur ráðherrann ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að setja hlutina í söluferli. En það frumvarp sem hér er verið að leggja fram er með allt öðrum hætti. Í því er lagt til að Bankasýslan verði beinlínis lögð niður. Í staðinn á að setja ráðgjafarnefnd þriggja manna. Hverjir skyldu skipa og tilnefna í ráðgjafarnefndina? Ráðherrann sjálfur. Breytingin er líka þannig að samkvæmt frumvarpinu hefur ráðherrann frumkvæðisrétt til þess að ákveða söluferlið. Þetta er gjörbreyting. Þetta skiptir auðvitað meginmáli. Ráðherrann þarf samkvæmt því frumvarpi sem við erum að ræða nánast ekkert að gera annað en að leita samráðs við ráðgjafarnefndina sem hann skipaði sjálfur. Hann þarf jú að leyfa efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd að fjalla um málið innan frests sem hann ákveður sjálfur, en í frumvarpinu segir ekki eitt einasta orð um að hann þurfi að taka mark á þeim, og hann þarf síðan að leggja málið fyrir Seðlabankann og leita samráðs þar.

Til þess að sinna því aðhaldshlutverki sem ég á lögum samkvæmt að gegna verð ég að benda á að samhliða þessu er líka búið að lýsa yfir að það eigi að leggja fram frumvarp um breytingar á yfirstjórn Seðlabankans, sem þýðir að þangað koma tveir aðrir bankastjórar. Samkvæmt gömlu helmingaskiptareglu núverandi stjórnarflokka ætla þeir auðvitað að hrammsa hvor um sig annan bankastjórann. Með öðrum orðum, það er verið að rýra sjálfstæði Seðlabankans samhliða þessu, og auðvitað ber að leggja áherslu á að skoða þessi mál saman.

Í þriðja lagi, herra forseti, bendi ég á að fram undan standa Íslendingar andspænis hugsanlega erfiðustu og flóknustu aðgerð sem þeir hafa þurft að ráðast í innan fjármálakerfisins, þ.e. afnámi gjaldeyrishafta. Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður ekki hægt að ráðast í það með öðrum hætti en að raka krónueignina og líkast til með þeim hætti að þeir bankar sem nú eru að miklum meiri hluta í eigu erlendra kröfuhafa lenda hjá ríkinu. Það er erfitt að sjá annað. Er þá rétta leiðin sú, herra forseti, að ætla að taka ákvarðanir um eignarhald og um hugsanlega sölu á tveimur nýjum stórum bönkum auk 30% í Landsbankanum og hlutanna í sparisjóðunum inn á skrifborð hæstv. fjármálaráðherra?

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér um daginn, eftir að hafa hlustað á andsvar hjá mér, að ég væri að ala á illum hvötum. Ég ætla að minna á að það er ekki langt síðan hér var selt fyrirtæki sem Landsbankinn réð fyrir og ekki kemur mér í hug eitt einasta augnablik að ásaka nokkurn mann um að hafa haft einhvers konar pólitíska íhlutunartilburði þar, en hvernig umræða spratt upp í kjölfar þess? Hvernig halda hv. þingmenn stjórnarflokkanna að umræðan muni verða þegar menn fara síðan að afsetja banka og hluti í bönkum og sparisjóðum og taka beinlínis ákvarðanir um það í fjármálaráðuneytinu? Það er þetta sem ég vara við. Þetta er ekki þægileg staða fyrir stjórnmálin, hvort sem menn eru í stjórnarandstöðu eða ríkisstjórn. Þetta var það sem ég vildi segja um hinn efnislega umbúnað frumvarpsins sjálfs. Ég geri reyndar líka athugasemdir við það hvernig menn ætla síðan að haga skipan í stjórnir bankanna. Höfum það hugfast að þá verða hugsanlega um skeið komnir tveir stórir bankar í eigu ríkisins líka.

Eins og Bankasýslan er upp byggð núna þá skipar ráðherrann í stjórn hennar. Hún skipar valnefnd sem velur samkvæmt umsóknum í stjórnir bankanna. Samkvæmt frumvarpinu verður þetta þannig að ráðherrann skipar sjálfur þriggja manna ráðgjafarnefnd án tilnefningar og hún velur í bankastjórnirnar. Hér er því búið að minnka verulega fjarlægðina á millum hins pólitíska valds og bankavaldsins. Þetta tel ég líka að sé ekki af hinu góða.

Það sem skiptir mig máli þegar við ráðumst í breytingar af þessu tagi er á hvaða grundvelli þær eru reistar. Hefur til dæmis verið gert sjálfstætt mat á kostum og göllum núverandi fyrirkomulags? Það er ekki að finna í greinargerðinni. Hefur þetta fyrirkomulag reynst illa? Ég er ekki sannfærður um það og ekkert færir mér heim sanninn um það. Það liggur einfaldlega fyrir að þetta frumvarp felur í sér breytingar á fyrirkomulagi sem er við lýði í öllum Evrópulöndum sem hafa eignast banka í kjölfar kreppunnar árið 2008 og yfir í fyrirkomulag sem ekki er vitað til að sé nokkurs staðar við lýði. Þetta er meginpuktur. Við erum að fara inn á ókannaðar lendur og enginn veit hvernig þetta hefur reynst vegna þess að þetta hefur hvergi annars staðar verið reynt.

Á sínum tíma voru stofnsettar sjálfstæðar bankasýslur í Bretlandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi og á Spáni. Á sínum tíma, árið 1991, var líka sett með lögum bankasýsla í Noregi þegar bankakreppan geisaði þar. Hún starfaði í 13 ár. Það er rétt, herra forseti, að leggja áherslu á það þegar menn, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, segja að Bankasýsla ríkisins sé búin að starfa of lengi, að í Noregi, þar sem menn tóku þetta upp og notuðu með geysilega góðum árangri, leiddi stofnunin til þess að lokum að allt það fé sem Norðmenn settu í bankana í kjölfar bankahrunsins 1991 heimtist til baka með ærnum ávinningi, ágóða og vöxtum. Þar lifði bankasýslan í 13 ár. Hvers vegna kemur þá hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og segir að hún sé orðin allt of gömul hérna, búin að lifa allt of lengi? (Gripið fram í.)— Þú sagðir það víst fyrr í þessari umræðu. Það liggur fyrir að Bankasýslan á hugsanlega enn eftir meginhlutann af sínu verki. Þá er rétt að rifja það upp að í Bretlandi settu menn líka upp sams konar stofnun. Það var gert af Verkamannaflokknum en Íhaldsflokkurinn sem tók síðan við hefur engin áform um að leggja hana niður, heldur telur hana vera mjög þarfa og gagnlega. Þá má geta þess líka í samanburðinum að ríkissjóður Íslands hefur miklu meiri fjárhagslega hagsmuni að veði vegna hlutabréfaeignar í bönkum en önnur Evrópulönd. Það má til dæmis minna á upplýsingar sem komu fram í ársskýrslu Bankasýslunnar í fyrra þar sem kom fram að hlutur ríkissjóðs í bókfærðu eigin fé viðskiptabanka í árslok þess árs, 2013, sem hlutfall t.d. af vergri landsframleiðslu var næstum því 15% eða miklu hærra en í flestum öðrum löndum. Það er þess vegna sem það skiptir máli að hafa alvörustofnun sem hefur reynslu.

Síðan ætla ég aðeins að reifa það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur sannarlega sagt, að það sé frábært að setja þetta í söluferli í gegnum Ríkiskaup af því að það sé okkar besta stofnun á þessu sviði. Það er alveg hárrétt hjá honum. Hún er mjög fær á því sviði sem hún hefur reynslu á. En ég spyr: Er einhver sérfræðireynsla innan þeirrar stofnunar til þess að selja eigur sem leggja sig sennilega á núvirði á 250 milljarða? Og enn frekar: Er einhver reynsla, einhver sérfræðiþekking innan fjármálaráðuneytisins til þess að takast á við slíkt? Ég er ekki viss um það.

Hins vegar hafa menn heyjað sér mikils reynsluforða innan Bankasýslunnar. Og þegar menn tala um að hún kosti svo mikið — ja, hvað kostar Bankasýslan, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson? 50–60 milljónir á ári. Hvað er það mikið af heildarveltu ríkisins? (Gripið fram í.) 0,02%, það er það sem hún kostar á ári samkvæmt upplýsingum frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni héðan úr ræðustól Alþingis frá því í síðustu viku. Ég velti því fyrir mér, ef þessi breyting verður að veruleika, hvort hún muni ekki þegar upp er staðið kosta miklu meira. Munu Ríkiskaup og fjármálaráðuneytið ekki þurfa að kaupa sér mikla sérfræðiráðgjöf utan sinna veggja til að geta staðið að þessu? Allir vita hvað það kostar.

Herra forseti. Í virðingarskyni við þingið og nauman tíma þess ætla ég ekki að fullnýta ræðutíma minn.