144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og langar til að spyrja hann nokkurra spurninga í beinu framhaldi af henni. Í fyrsta lagi varðandi 4. gr. þar sem hv. þingmaður hafði áhyggjur af þeirri armslengd sem væri á milli fjármálaráðherra og ráðgjafarnefndarinnar. Nú kemur fram í 2. gr. laga um Bankasýsluna að það er ráðherra sem skipar þriggja manna stjórn og það er jafnframt ráðherra sem ákveður þóknun stjórnarmanna. Í raun er stjórn Bankasýslunnar skipuð á þann hátt sem á að skipa ráðgjafarnefndina núna. Það stendur líka, með leyfi forseta:

„Hlutverk stjórnar er að móta áherslur í starfi og fylgjast með starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Allar meiri háttar ákvarðanir skal bera skriflega undir stjórnina til samþykktar eða synjunar.“

Þetta er þriggja manna stjórn sem ráðherra skipar og allar meiri háttar ákvarðanir þarf að bera undir hana. Telur hv. þingmaður að armslengdin í stjórninni sé lengri nú en ef ráðgjafarnefndin yrði sett á laggirnar.?

Í þriðja lagi, af því að hv. þingmaður var hæstv. utanríkisráðherra í síðustu ríkisstjórn, öll fjögur árin, langar mig að spyrja hann: Hvernig stóð á því að ríkisstjórn Íslands á tímabilinu 2009–2013 fól ekki Bankasýslu ríkisins að fara með hlut Arion banka og Íslandsbanka þegar þeir voru afhentir kröfuhöfunum? Hvers vegna fór það ekki til Bankasýslu ríkisins þar sem hún hafði verið sett með lögum 18. ágúst 2009 en sá gjörningur var í nóvember 2009? Ef Bankasýslan er svona mikilvæg, hvernig stendur á því að sá gjörningur fór ekki í gegnum Bankasýsluna?