144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur lesið allt um SpKef í stórri skýrslu sem kostaði hundruð milljóna og þingið hefur eytt miklum tíma í að fara yfir. Ég þarf ekki að koma hingað til þess að rekja fyrir hv. þingmanni tildrög þess máls. Það væri mér ánægja að hlusta á hann endurtaka meginefni skýrslunnar í ræðunni sem hann ætlar að flytja hér á eftir.

Hv. þingmaður stendur frammi fyrir því að hér er verið að fara gegn því sem ég og hann vorum sammála um á árum fyrri (GÞÞ: Nei.) — víst, þar sem menn ákváðu að fara að reynslu annarra þjóða til þess að reyna að draga úr nábýli og auka fjarlægðina á milli hins pólitíska og fjármálalega valds. Það var það sem samkvæmt (GÞÞ: Svaraðu spurningunni.) rannsóknarskýrslu Alþingis var ein meginástæðan fyrir því að yfir íslensku þjóðina reið bankahrunið með öllum (Forseti hringir.) þeim skelfilegu afleiðingum sem við höfum þurft að upplifa. (GÞÞ: Svaraðu.) Og hv. þingmanni væri sæmst frekar að taka á ækinu með okkur til þess að koma í veg fyrir að við séum að setja aftur upp sömu stöðu.