144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Í umsögn sem fylgir frumvarpi til laga um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum kemur það fram sem ég held að sé lykillinn eða lykilréttlætingin fyrir frumvarpinu, með leyfi forseta: „Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna meðferðar og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum lækki frá því sem verið hefur […]“ og að heildaráhrif frumvarpsins „lækki útgjöld ríkissjóðs um 40 til 50 millj. kr. árlega“. Þetta virðist vera aðalatriðið.

Samkvæmt Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa þarf alltaf að fylgja stjórnarfrumvörpum tilefni og nauðsyn lagasetningar. Í 2. lið í greinargerðinni með frumvarpinu kemur fram tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar. Þar virðist aðalatriðið vera að menn hafi lækkað fjárframlög til Bankasýslunnar og hún hefði átt að vera búin að ljúka störfum og eitthvað slíkt. Þetta var fimm ára verkefni og vegna þess að þeir hafa lækkað fjárframlögin og vilja ekki að hún starfi lengur þurfi að færa þau verkefni sem hún sinnir, m.a. ráðleggingar varðandi hvernig skuli einkavæða bankana eða selja eignir ríkisins í bönkunum, inn í ráðuneytið.

Er ekki hægt að fara einhverjar aðrar leiðir með þetta? Hvað finnst þingmanninum? Finnst honum réttlætanlegt að leggja niður þessa stofnun og mögulega spara og telur hann líklegt að sparnaðartölurnar, 40–50 milljónir, séu réttar? Við erum að tala um gríðarlega stórar eignir. Hvað eru þær aftur miklar? 250–300 milljarðar? Og að það sé faglegt ferli sem er farið þegar verið er að selja (Forseti hringir.) þessar eignir. Ætti ekki einmitt að styrkja Bankasýsluna og tryggja enn þá faglegra, opnara og gegnsærra ferli sem tryggir ekki (Forseti hringir.)