144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér nokkrum vonbrigðum hvernig hv. þingmaður skautar yfir hlutina og reynir að teikna upp einhverja mynd sem er ekki til staðar. Látum nú vera þjóðargjaldþrotið. Ég hvet hv. þingmann til að lesa nýja bók dr. Ásgeirs Jónssonar og dr. Hersis — ég man nú ekki hvers son hann er (Gripið fram í: Sigurgeirsson.) — Sigurgeirssonar þar sem er farið nákvæmlega yfir þessa þætti og kostnaðinn við bankahrunið. Við getum rætt það alveg sérstaklega og þann þátt að við tókum gagnrýnislítið upp við regluverk Evrópusambandsins þegar kom að bönkunum og ýmislegt annað.

Hv. þingmaður getur ekki komið hingað upp og sagt að þessi stofnun hafi tryggt armslengd. Það er bara ekki nóg. Við getum verið sammála um að það þurfi armslengd en við getum ekki haldið því fram eins og hv. þingmaður veit mætavel að Bankasýsla ríkisins ein og sér hafi verið einhver trygging fyrir því. Ef við viljum gera eitthvað meira hvað varðar armslengdina þá er náttúrlega gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi og við þurfum þá að fara yfir það. En hv. þingmaður veit að eignarhlutirnir í SpKef og Byr og auðvitað stóru bönkunum líka, Arion banka og svo Glitni, voru ekki settir inn í þessa stofnun, það var ekki farið eftir tillögum sem voru unnar í þessari stofnun varðandi sparisjóðina. Sömuleiðis má nefna að þrátt fyrir að þessi stofnun væri til staðar þá fékkst ekki einu sinni upp gefið hvert söluverðið var þegar Landsbankinn einkavæddi fyrirtæki á síðasta kjörtímabili. Það eru margir búnir að vinna í Bankasýslunni, þar hefur því miður verið nokkuð mikil starfsmannavelta og allt mætasta fólk, það hefur ekkert með það að gera — við bara þekkjum það að þetta er engin (Forseti hringir.) trygging fyrir því sem hv. þingmaður er að tala um.