144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að beina fyrirspurn til hans sem var fyrrverandi hæstv. ráðherra í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili því að tveir fyrrverandi hæstv. ráðherrar sem hér hafa tekið til máls gátu hvorugur svarað þeirri spurningu sem ég beindi til þeirra.

Bankasýsla ríkisins var stofnuð 18. ágúst 2009. Ríkið átti alfarið Arion banka þangað til í nóvember 2009 þegar ríkið kemst að samkomulagi við kröfuhafa um að þeir eignist 87%. Og Íslandsbanki var á nákvæmlega sama hátt í eigu ríkisins fram í október 2009 þegar næst samkomulag við kröfuhafa.

Hv. þm. Árni Páll Árnason var um tíma efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Mig langar að spyrja hann hvers vegna hann telur að þessi stóru mál þessara tveggja banka hafi ekki verið í umsjá Bankasýslu ríkisins á þeim tíma þegar kröfuhöfunum voru afhentir bankarnir. Hvers vegna fór Bankasýslan ekki með þessi mál?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann sem þá var efnahags- og viðskiptaráðherra: Hvar og með hvaða fyrirtæki í fjármálageiranum hefur Bankasýslan fjallað um og sýnt er að hafi skilað góðum árangri?