144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið orðinn efnahags- og viðskiptaráðherra á þeim tíma sem hv. þingmaður beinir til mín spurningum um, þá er mér bæði ljúft og skylt að leiðrétta ákveðinn misskilning sem hefur verið uppi í umræðum um þessi mál. Eignarhald í bönkunum var flutt til Bankasýslu ríkisins eftir að gengið var frá skuldaskiptum við kröfuhafa og þar með búinn til efnahagsreikningur. Það gerðist í tilviki Arion banka, það gerðist í tilviki Glitnis. Ástæðan fyrir því að SpKef og Byr voru aldrei færðir yfir var sú að það náðust aldrei samningar við kröfuhafana um að stofna efnahagsreikning bankanna. Þeir störfuðu þar af leiðandi, bæði Glitnir og Arion banki, eða bæði Íslandsbanki og Arion banki hétu þá Nýja Kaupþing þessa mánuði, og jú Íslandsbanki varð nú skírður Íslandsbanki, alveg fram á haustið 2009 í umboði og á ábyrgð ríkisins alveg eins og gerst hafði frá neyðarlögunum og eignarhaldinu er ekki skilað til Bankasýslunnar fyrr en gengið er frá því.

Bankasýslan hefur náð miklum árangri í starfi. Það er til dæmis óumdeilt og óumdeilanlegt að við höfum nú þegar endurheimt rúm 40% af tæplega 140 milljarða upphaflegu fjárframlagi til fjármálafyrirtækjanna. Það er ekki rétt sem hv. þingmaður sagði og virtist þar vera, því miður, að elta uppi meinlokurnar úr sumum sem hafa farið með rangt mál um stofnun bankanna. Bankarnir tveir stóru voru aldrei afhentir kröfuhöfum, ríkið sleppti því að endurfjármagna þá og það voru kröfuhafarnir sjálfir sem endurfjármögnuðu þá. Ríkið endurfjármagnaði hins vegar til fulls einn banka, sem var Landsbankinn. Því er það þannig að þegar horft er yfir starfsemi Bankasýslunnar, meðal annars með stefnumörkun hennar um að selja ekki eignarhluta strax heldur að knýja fram hámarksarðsemi úr bönkunum, þá hefur náðst verulegur árangur og það góður að við erum sem sagt komin með í hendi 40% af þessu upphaflega framlagi án þess að hafa selt einn einasta hluta í bönkunum.