144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns að þessu leyti. Það er auðvitað vandamál varðandi þessa ríkisstjórn að það eitt að hafa formlega réttar leiðir, annað er hvernig þeim er beitt. Við höfum alveg skelfilegt dæmi frá síðasta sumri þar sem hæstv. fjármálaráðherra lét sér detta í hug að búa til valnefnd vegna skipunar í stöðu seðlabankastjóra og gera að formanni hennar lögreglustjórann í Reykjavík, sem hafði enga þekkingu á þeim málasviðum sem starfsemi Seðlabankans laut að. Það var maður sem uppfyllti ýmsar formlegar hæfniskröfur, en guð minn góður, hafði enga innsýn í efnissviðið sem verið var að velja mann til að stjórna. Eitt er þess vegna að hafa formlegar kröfur, annað er að beita þeim rétt. Ég hef enga trú á því að jafn losaralegar kröfur og gerðar eru til hæfi þessara ráðgjafarnefndarmanna verði til þess að hemja hæstv. ráðherra í því að beita valdi sínu holt og bolt eins og hann lystir.