144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi tekið þátt í þessari umræðu frá því að hún byrjaði. Umræðan er búin að vera löng og ströng um mál sem er ekki stórt í eðli sínu. Ég hef verið að hlusta eftir röksemdum hv. þingmanna stjórnarandstöðu fyrir því að fara í málþóf í þessu máli. (Gripið fram í.) Eitthvað kom ég nú við kaunin á hv. þingmönnum með því að nefna að þeir væru í málþófi. Það verður bara svo að vera.

Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að ég er búinn að spyrja alla fyrrverandi ráðherra úr síðustu ríkisstjórn, sem hafa komið hingað upp, af hverju í ósköpunum þeir voru hér með stórar fjármálastofnanir í rekstri og voru ekki með þær undir þessari faglegu Bankasýslu. Engin málefnaleg svör hafa borist. (Gripið fram í: Jú, jú.) Og að koma hingað og halda því fram að stofnanir sem voru í fullri samkeppni á fjármálamarkaði hafi ekki verið að fullu fjármagnaðar og þá hafi bara verið í lagi að hafa þær í fjármálaráðuneytinu, sú röksemd heldur ekki vatni. Ég vek athygli á því og það kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina að síðasta ríkisstjórn fór þvert gegn öllum ráðleggingum, hvort sem þær komu frá Mats Josefssyni, Arnóri Sighvatssyni í Seðlabankanum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða öllum þeim sem að málinu komu. Sú ríkisstjórn var með sérstaka stofnun sem átti að tryggja armslengd stjórnmálanna frá fjármálamörkuðum og það er algerlega ljóst hvað sem mönnum finnst um þá litlu stofnun að hún tryggði það ekki. Það er líka ljóst að síðasta ríkisstjórn fór ekki eftir þeim tillögum sem komu frá þessari stofnun þegar kom að framtíð sparisjóðakerfisins. Þetta liggur allt saman fyrir.

Hér gera menn lítið úr sérþekkingu Ríkiskaupa sem er mun stærri stofnun. Ég veit ekki af hverju það er. Menn gleyma því að þetta frumvarp tekur nákvæmlega á þeim markmiðum að vera með armsleynd og tryggja að þeir sem sitja í bankaráðum, meðan það fyrirkomulag er, sé hæft fólk. Menn gleyma því til dæmis að allir geta gefið kost á sér og sótt um alveg eins og núna, en þetta yrði gert með mun hagkvæmari hætti.

Lengst af, þó að það verði að segjast eins og er að í dag hefur umræðan verið miklu skárri, miklu betri, þá hefur hún gengið út á að væna menn um og ætla þeim mjög alvarlega hluti. Það verður að segjast eins og er að umræðan hér fyrir helgi var orðin ansi svæsin þegar kom að því. En þingmenn stjórnarandstöðu svara því ekki, úr því að þeir eru núna allt í einu orðnir svo fylgjandi armsleynd og faglegum vinnubrögðum, af hverju þeir tóku þátt í því að fara þvert gegn því á síðasta kjörtímabili. Ég held að engin stofnun, ekkert fyrirkomulag geti komið í veg fyrir misbeitingu valds. Það er því miður ekki hægt. Ef það væri hægt þá held ég að við ættum að taka slíkt fyrirkomulag upp á morgun. (JÞÓ: Þú getur náttúrlega takmarkað það.) Þetta er gott dæmi um það að menn fóru af stað með góð fyrirheit en fóru síðan aðra leið eins og frægt er orðið. Þess vegna skiptir máli þegar við erum að fara yfir þetta frumvarp að við vinnum það með þeim hætti að við náum þeim markmiðum sem hv. þingmenn hafa alla vega í orði kveðnu talað um hér. Ef við gerum það náum við góðum árangri. Síðan skiptir máli að þingið veiti framkvæmdarvaldinu það nauðsynlega aðhald sem þarf að gera hvort sem það er á þessu kjörtímabili, næsta eða þar næsta. Það er mjög mikilvægt. Mér finnst hins vegar leitt að sjá menn skauta í gegnum efni frumvarpsins eins og hefur verið gert, tala hér og fullyrða jafnvel að ef það verði samþykkt þá fari allir hlutir á skrifborð hæstv. ráðherra og hann geti bara farið með valdið eins og hann vilji. Allir hv. þingmenn sem töluðu þannig vita að það er langur vegur frá og reyndar er engin stoð fyrir því.