144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki viljað lengja þessa umræðu en hlýt að koma hingað upp og svara ræðu hv. þingmanns.

Í fyrsta lagi er ekkert óeðlilegt við það að við bendum á að samkvæmt frumvarpinu fari þessi mál inn á skrifborð hæstv. ráðherra vegna þess að þannig er það. Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á öllum málum sem afgreidd eru í hans ráðuneyti og hann hefur boðvald yfir öllum starfsmönnum ráðuneytisins og það á að fella málið inn í ráðuneytið. Það er engin leið að afneita ábyrgð hæstv. ráðherra á öllu sem verður ákveðið vegna þess að allt sem verður ákveðið um eignarhald í bönkum, um arðgreiðslur einstakra banka o.s.frv., af fulltrúum hans á hluthafafundum verður afgreitt og ákveðið í hans umboði. Þannig er stjórnskipan Íslands.

Í annan stað efast ég ekkert um ágæti starfsmanna Ríkiskaupa. Þeir hafa bara enga þekkingu á sölu á eignarhlutum í bönkum og þeir hafa engar forsendur til að gefa sér hvort það sé til dæmis betra að leggja áherslu á arðsemi banka og taka út úr þeim arð yfir lengra tímabil, eins og Bankasýslan hefur ákveðið að gera með mjög góðum árangri á síðustu árum, eða selja strax. Þetta eru ákvarðanir sem þarf mjög mikla sérhæfða þekkingu til að taka. Það leiðir aftur af niðurstöðunni: Ef það á að byggja upp þekkingu á þessu í Ríkiskaupum þá kostar það mun meira en sem nemur meintum sparnaði af þessu frumvarpi.

Að síðustu varðandi upphafsspurningu hv. þingmanns um eignarhlutina í bönkunum. Ég flutti sem bæði efnahags- og viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra ítrekað ræður þar sem ég kallaði eftir því að sem fyrst yrði gengið frá endurfjármögnun SpKef og Byrs. Hv. þingmaður getur flett því upp. Það hafa líklega fáir aðrir gengið jafn hart eftir því að í það yrði ráðist. Hitt var alltaf ljóst og á allra vitorði að þessir eignarhlutir færu aldrei til meðferðar í Bankasýslunni fyrr en búið væri að ná að byggja upp stofnefnahagsreikning (Forseti hringir.) sem friður væri um rétt eins og í tilviki gömlu bankanna. (Forseti hringir.) Það var nákvæmlega aðferðafræðin sem (Forseti hringir.) alltaf var fyrir hendi.