144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:07]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekkert eðlilegt við það hvernig var haldið á málum SpKef og Byrs, ekki neitt. Ég þekki þessi mál vel af því að ég var í hv. viðskiptanefnd allt síðasta kjörtímabil og fylgdist náið með því. Hér er talað um gagnsæi. Það var ekkert gagnsæi þar, ekkert, ekki frekar en þegar Landsbankinn einkavæddi ákveðin fyrirtæki á síðasta kjörtímabili. Það hefur ekki enn fengist uppgefið hvert söluverðið var.

Ég veit alveg hvernig gekk að fá spurningum svarað varðandi SpKef og Byr á síðasta kjörtímabili. Það var ekkert eðlilegt við það. Ég var með fulltrúa Bankasýslunnar og spurði um það þegar þeir settu í ársskýrsluna að þeir ættu að taka við eignarhlutum SpKef og Byrs. SpKef og Byr voru í bullandi samkeppni og uppfylltu ekki eiginfjárhlutföll á síðasta kjörtímabili. Það liggur allt hreint og klárt fyrir í rannsóknarskýrslu um sparisjóðina. Það var ekkert eðlilegt við það. Menn geta talað í kringum það eins og þeir vilja en það var ekkert eðlilegt við það, ekkert. Ef menn hefðu farið þá leið sem var til dæmis gert með Sparisjóð Mýrasýslu og allir sérfræðingar bentu á þá hefðum við ekki tapað rúmlega 21 milljarði eins og niðurstaðan varð.

Virðulegi forseti. Menn tala hér alltaf eins og lög um Bankasýslu ríkisins þýði að hún ráði öllu. Af hverju skoða menn ekki bara 4. gr., um verkefnin? Þetta gengur allt út á að koma með tillögur til ráðherra. (Gripið fram í: … frumkvæðisvaldið?) Um það snýst málið. Menn verða að lesa frumvarpið um Bankasýsluna og lesa frumvarpið sem liggur fyrir. Síðan er ágætt að skoða hvernig þetta hefur verið í framkvæmd. Þegar kemur að þessum málum þýðir ekki að koma hingað með einhverjar draugasögur í björtu. Það er enginn búinn að gleyma því hvernig var gengið fram á síðasta kjörtímabili.