144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bankasýslan á að hafa eftirlit með og framfylgja eigendastefnu ríkisins, nákvæmlega það sama og hefur verið gert ráð fyrir í þessu frumvarpi, þ.e. að þeir stjórnarmenn sem eru í bönkunum framkvæmi eigendastefnu ríkisins. Þar kemur akkúrat sá þáttur sem hv. þingmaður ræddi um.

Ég skil ekki þann útúrsnúning að ég sé að gagnrýna Bankasýsluna. Ég var að gagnrýna síðustu ríkisstjórn. Er eitthvað óljóst í því, virðulegi forseti? Er ég ekki búinn að segja það nógu oft í þessari umræðu og allt síðasta kjörtímabil? Ég er ekki að hamast á starfsmönnum Bankasýslu ríkisins, það hvarflar ekki að mér eina sekúndu. Ég varð ekki var við annað en þeir kæmu með skynsamlegar tillögur sem ekki var farið eftir. Ég varð ekki var við annað en að þeir hefðu gert það, þeir starfa að vísu ekki núna í Bankasýslunni. Ég hef ekki orðið var við annað af því sem ég hef heyrt frá núverandi starfsmönnum Bankasýslunnar, prýðisfólk sem er að vinna sitt starf af alúð og kemur með gott innlegg í málið. Ég var að gagnrýna síðustu ríkisstjórn.

Hv. þingmaður veit sem er og ég veit að hv. þingmenn sem hér hafa talað vita einnig, eins og hv. þingmaður orðaði það svo pent, að það var ekki til fyrirmyndar að hafa ófjármögnuð fjármálafyrirtæki á markaði. „Ekki til fyrirmyndar“ er mjög hógvært orðalag á mjög alvarlegum hlut sem kostaði gríðarlega fjármuni, tugi milljarða fyrir skattgreiðendur. Ég veit alveg að hv. þingmaður hélt ekki á því verkefni, ekki frekar en þeir þingmenn sem hér hafa talað. Þegar þetta var tekið upp var það ég sem gerði það og án þess að fara neitt að metast við hv. þingmann þá held ég að ég hafi gagnrýnt þetta eitthvað örlítið meira ásamt ýmsum öðrum í stjórnarandstöðunni en þeir voru í stjórnarliðinu. Það sem ég er að segja er að þó svo að Bankasýslan hafi verið til staðar með öll þessi göfugu markmið þá var þetta hægt. Það er nefnilega engin stofnun sem tryggir að menn fari ekki illa með vald. Bankasýslan gerir það svo sannarlega ekki.

Við erum held ég sammála í orði kveðnu um markmiðin. Förum þá og skoðum þetta frumvarp og sjáum (Forseti hringir.) hvernig við getum náð markmiðum sem við (Forseti hringir.) erum sammála um.