144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með málefnalegar og góðar spurningar. Munurinn á mér og hv. þingmanni er að ég ætla að svara þeim. Ég spurði hv. þingmann nokkuð gagnrýnnar spurningar hér áðan og hann ákvað að sleppa því alveg að svara og benda á einhverja allt aðra. (Gripið fram í.) Ég ætla hins vegar að svara því að þetta eru fínar spurningar og eðlilegt að hann vilji fá svör við þeim.

Þetta eru tvö mál. Annars vegar varðandi SpKef og Byr þá nefndi ég aðila, þá er ég ekki að vísa í Bankasýsluna heldur Mats Josefsson, Seðlabankann, fjármálaráðuneytið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmsa fleiri sem sögðu að það væri engin von með þessa sparisjóði, sérstaklega Sparisjóð Keflavíkur. Samt sem áður var haldið áfram með þá, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi, illa fjármagnaða. Þeir uppfylltu ekki einu sinni eiginfjárhlutföll sem er alveg óskiljanlegt því að Fjármálaeftirlitið fylgdist með þessu frá því í febrúar og mars. Þeir söfnuðu innlánum og stækkuðu þar af leiðandi vandann enn frekar. Svo var auðvitað gríðarlegur rekstrarkostnaður, eignirnar súrnuðu o.s.frv. Það er enginn vafi á því að menn áttu að taka á þessum málum strax. Þetta snýr ekki beint að tillögum Bankasýslunnar, a.m.k. ekki þeim sem við sáum.

Tillögur Bankasýslunnar sem voru kynntar fyrir okkur voru þessar: Þeir komu með tillögur um sparisjóðakerfið. Þeir töldu að vonlaust væri að reka það eins og það er núna. Þeir voru með annaðhvort tvær eða þrjár útfærslur á því hvernig þeir sæju að væri hægt að gera þetta. Það var nokkurn veginn þannig að í fyrsta lagi vildu þeir sameina alla bakvinnslu og svo ýmislegt annað yfir landið allt saman og hafa síðan landshlutasparisjóði og hvort þriðja atriðið var blönduð leið. Þetta voru slíkir hlutir. Þeir voru búnir að fara yfir þetta faglega hvernig staðan væri á sparisjóðunum o.s.frv. og þeir töldu að þetta væri eina leiðin. Það var ekki neitt gert með þetta eins og við vitum báðir.