144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fullkomlega vonlaust að leiðrétta allar rangfærslurnar sem komu fram í máli hv. þingmanns. Í fyrsta lagi voru þeir ekki farnir á hausinn, SpKef og Byr. Þeim var haldið lifandi, ófjármögnuðum, söfnuðu innlánum og kostnaði (ÖS: Það er bara …) gegn ráðleggingum sérfræðinga. Ég hvet hv. þingmann til að hlusta. Ef hann vill ekki hlusta þá hvet ég hann til að lesa skýrslu rannsóknarnefndar um sparisjóðina. Ef hann vill ekki lesa hana þá hvet ég hann til að lesa bókina sem dr. Hersir Sigurgeirsson og dr. Ásgeir Jónsson skrifuðu um SpKef. Það er stuttur lestur þar sem allt er dregið saman. Þá skilur hv. þingmaður út á hvað málið gekk. Þvert á ráðleggingar sérfræðinga ákvað fjármálaráðuneytið, þ.e. síðasta ríkisstjórn, að halda lífi í þessum stofnum. Hver fékk reikninginn fyrir því? Fólkið í landinu. Kostnaður við SpKef var 21 milljarður.

Af hverju er hv. þingmaður að klifa á því að ég sé að gagnrýna Bankasýsluna? Ég er að gagnrýna síðustu ríkisstjórn, ekki Bankasýsluna. Ég er að segja að það dugi ekkert að hafa Bankasýsluna þegar við höfum ríkisstjórn eins og þá síðustu sem getur farið fram hjá Bankasýslunni eins og hún gerði. Ég fór yfir það að Bankasýslan kom með tillögur um hvað ætti að gera við þessa sparisjóði. Og bara til að rifja það upp, af því að ég veit að hv. þingmaður hefur ekki alltaf langtímaminni en hann hefur skammtímaminni, þá lenti einn af sparisjóðunum sem voru teknir yfir í ákveðnum vandræðum og var gengið frá því fyrir nokkrum dögum, þ.e. Sparisjóður Vestmannaeyja. Það var þetta sem aðilar í Bankasýslunni vöruðu við, þeir sem komu með tillögur um framtíðarhlutverk sparisjóðanna sem síðasta hæstv. ríkisstjórn — og ég er að gagnrýna hana svo að það sé algerlega skýrt — tók ekki mark á. Ég er ekki að gagnrýna það prýðisgóða starfsfólk sem er í Bankasýslunni, hvorki áður né núna. Ég er að gagnrýna síðustu (Forseti hringir.) ríkisstjórn og hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra og fyrrverandi stjórnarliða.