144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni vekja athygli á því, af því menn tala um þekkinguna sem er búin að byggjast upp í Bankasýslunni í sex ár, að sama fólkið er ekki búið að vera þarna allan þann tíma, það er langur vegur frá því, mjög langur vegur frá því, bæði þegar kemur að stjórnarmönnum og einstaklingum. Þekkingin þurrkast ekki út, það er ekki þannig að þessir aðilar verði ekki lengur til og það er auðvitað hægt að nýta sér þá þekkingu ef vilji er fyrir hendi.

Síðan vil ég líka vekja athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir ýmsum ferlum. Það er ekki verið að taka ákvörðun um að einkavæða bankanna, en ef það yrði gert þá skipti engu máli hvort við hefðum Bankasýsluna eða ekki því að við mundum þurfa að fara í gegnum mjög mikinn prósess, og með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki sem þar er þá væri það ekki nóg. Það er því ekki hægt að tala, eins og mér finnst hv. þingmaður vera að gera, um að hér sé verið að ganga frá því að þetta sé réttur ráðherranna. Hv. þingmaður er búinn að lesa frumvarpið, hann veit að það er ekki rétt, (Gripið fram í: Ráðherra …) þingið verður að taka ákvörðun um þetta (Gripið fram í: Nei.) Víst verður þingið … (Gripið fram í.) Ég vísa bara í stjórnarskrána. Það getur enginn ráðherra selt nokkurn skapaðan hlut af ríkiseigum nema fá leyfi þingsins til þess. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þess vegna göngum við þannig frá því í fjárlögum, m.a. í 6. gr., að við greinum þetta niður á hús, það má ekki selja íbúð nema það sé tilgreint í fjárlögum. Í þessu tilfelli er gert ráð fyrir því að það sé settur ákveðinn ferill og ef við ætlum að fara að selja þessar stóru eignir þá þarf að fara alvöruumræða fram um það og það þarf að koma til aðstoð sérfræðinga sem best þekkja bæði innan lands og utan. Það er farið yfir þessa hluti m.a. í frumvarpinu, en við erum ekki að taka ákvörðun um að fara að selja bankana núna. Það er langur vegur frá.