144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er búið að taka ákvörðun um að selja þessa eignarhluti í bönkunum og hefur verið rætt um það í þessum þingsal. Það sem verið er að taka ákvörðun um hér er hver geti raunverulega ráðið því hvort það skuli hafa frumkvæði að söluferlinu, hvenær skuli hefja það, og það verður ráðherra. Þegar búið er að leggja ýmislegt og alls konar fyrir hina og þessa aðila, t.d. þessa nýju ráðgjafarnefnd, Seðlabanka Íslands og nefndir Alþingis, skal ráðherra, samkvæmt 8. gr. taka ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar. Ráðherra hefur þetta vald. Ef hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson segir að þetta ákvæði í frumvarpinu heimili ráðherra það ekki, þótt það segi hér skýrt að ráðherra geti tekið ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar, þá vil ég endilega heyra það, við verðum að eiga hér málefnalega umræðu. Hv. þm. vísar þá eflaust í það hvaða greinar í hvaða lögum mundu trompa það að ráðherra, eins og hér stendur skýrt, skal taka ákvörðun um hvort sölumeðferð eignarhlutarins verði hafin í samræmi við efni greinargerðarinnar.