144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég er að segja er einfaldlega að það er ekki þannig. Ef við gefum okkur að við mundum samþykkja frumvarpið algjörlega óbreytt eins og það er í dag og við þurfum auðvitað að samþykkja þann þátt málsins líka þá er það ekki þannig að við séum að setja af stað einhvern prósess þar sem það er algjörlega handahófskennt hvernig ráðherra heldur á málum. (Gripið fram í.) Það er það sem hefur verið rætt hér, virðulegi forseti, af því hv. þingmaður kallar að það sé ekki handahófskennt, þannig hefur umræðan verið. Umræðan hefur verið á þeim stað hér, og mér hefur fundist hv. þingmaður taka undir það og mér þykir það miður, að við séum annars vegar með stofnun sem geri að verkum að hlutirnir séu stórkostlega faglegir og stjórnmálin geti ekkert komið að þeim og hins vegar, ef við samþykkjum þetta frumvarp og það verði að lögum sé salan bara komin á borðið hjá ráðherra sem mun geta, án þess að spyrja kóng eða prest, gengið frá henni. En þetta þarf að fara fyrir þingnefndir o.s.frv.

Ef menn telja að eitthvað í þessu ferli sé ekki nægjanlega gott þá þurfum við bara að fara yfir það, til þess er leikurinn gerður. En eins og staðan er nákvæmlega núna þá höfum við heimildir í fjárlögum til þess að selja eignarhlutina og Bankasýslan getur bara gert tillögur til ráðherra um hvernig hann eigi að haga því. Þannig er fyrirkomulagið núna. Það er búið að samþykkja heimild í fjárlögum og hefur verið lengi um að selja eignarhluta og það eina sem Bankasýslan getur gert er að koma með tillögur um hvernig eigi að gera það. Þannig er staðan núna.

Nú er verið að setja þetta í annan farveg og eðli máls samkvæmt, eins og hér kemur fram, þarf langur prósess að fara í gang áður en slíkt er framkvæmt. Ef menn telja að þetta sé ekki nægilega gott þá förum við yfir það, en við skulum ekki tala um það eins og að hlutirnir séu núna einhvern veginn allt öðruvísi en þeir eru. Þingið þarf alltaf að samþykkja lagafrumvarp um að selja eignarhluta jafnvel þótt Bankasýslan sé til staðar, Bankasýslan hefur enga aðra heimild en koma með tillögur.