144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[19:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Bankasýslan hefur meira en það, hún getur synjað ákvörðunum ráðherra. Hún getur samþykkt að synja ákvörðunum ráðherra, það kemur alla vega fram í lögunum um Bankasýslu ef ég er ekki eitthvað að misskilja þau, það kemur alveg skýrt fram í lögunum að allar meiri háttar ákvarðanir skuli bera skriflega undir stjórn til samþykktar eða synjunar. (GÞÞ: Að gera tillögur til ráðherra … 4. gr.) 2. gr. um stjórn. (Gripið fram í.)(Forseti hringir.)

Þannig að þeir geta alla vega þá hafnað ákvörðun. Ég er ekki að segja að Bankasýslan sé frábærasta batterí í heimi, aftur á móti er Bankasýslan, ólíkt ráðgjafarnefnd, örlítið fjær ráðherranum þótt hún sé ekki algjörlega óháð honum. Bankasýslan er búin að vera starfandi allan þennan tíma og að sjálfsögðu hefur fagþekking safnast þar og við vitum öll að það á að selja eignarhluti ríkisins í þessum bönkum. Viljum við ekki reyna að gera það faglega og með því fólki sem hefur verið að sýsla með þessa hluti? Mér finnst mjög varhugavert að afhenda andvirði þriggja nýrra Landspítala og setja í hendurnar á ráðgjafarnefnd sem hefur ekki sýslað með þessa hluti áður þegar við vitum að það á að selja eignarhlutina. Mér finnst það mjög varhugavert og líka það að ráðherrann getur upp á sitt einsdæmi, það er það sem verið er að heimila í þessum lögum, farið af stað með þetta ferli og ráðið því hvort það skuli gert á þeim forsendum sem hann leggur upp með. Já, það er rétt, hann þarf að spyrja bæði kóng og prest, en hann tekur ákvörðunina á endanum. (Gripið fram í.)