144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

efling atvinnu og samfélags á Suðurnesjum.

384. mál
[19:59]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til þess að fylgja þessu máli eftir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu. Við erum tvö frá Suðurnesjunum á þessari tillögu. Ég kem líka hingað upp til að lýsa miklum vonbrigðum mínum með undirtektir annarra þingmanna úr kjördæminu, ekki síst frá Suðurnesjum þar sem við erum sjö þaðan, ef ekki átta. Eins og ég segi voru þetta mikil vonbrigði því að ástandið á Suðurnesjum hefur verið mjög slæmt eins og þingmaðurinn rakti vel í greinargerðinni. Það er samt á uppleið og margt mjög gott að gerast þar. Ég tel mjög aðkallandi að skipa nefnd til þess að fara í heild yfir ástandið á Suðurnesjum og kortleggja það og gera tímasetta aðgerðaáætlun, ekki síst í ljósi stöðu Reykjanesbæjar sem er verulega slæm.

Ég kem frá Grindavík. Þar er ástandið ekki slæmt og hefur ekki verið, en ástandið er aðallega slæmt í Reykjanesbæ og Sandgerði enda eru þetta tvö skuldsettustu sveitarfélög landsins sem mundu kannski helst þurfa á því að halda að slík nefnd yrði skipuð til að fara yfir ástandið og kortleggja það og kanna hvernig við getum brugðist við og hjálpað þessum sveitarfélögum að rétta kúrsinn. Eins og kemur fram er fátækt á Suðurnesjum viðvarandi og ástand mjög slæmt félagslega hjá mörgum á svæðinu. Það er eitt af því sem við þurfum virkilega að taka föstum tökum, sérstaklega þar sem börn eiga í hlut.

Ég ætla nú ekki að lengja þetta mikið. Það kom ekki fram í þessari tillögu, t.d. í sambandi við hjúkrunarmálin, að nú vantar 57 hjúkrunarrými á Suðurnesjum. Það er mjög alvarlegt ástand og mikill vandi sem verður líka að grípa til ráðstafana við. Þar verður ríkið að koma inn. Við höfum Garðvang í Garði sem þarf náttúrlega mikillar lagfæringar við en mundi leysa mikið og taka stærsta kúfinn af biðlistunum. Það er eitt af því sem þarf að skoða mjög vel og fara í gegnum. Gefin var út skýrsla fyrir tveimur árum, að mig minnir, um þetta ástand þar sem stöðunni á Suðurnesjum var lýst mjög vel.

Það er margt sem hægt er að gera. Það liggur meira að segja tillaga fyrir og var lögð fram strax á fyrsta þingi, 143. þingi, af hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur Framsóknarflokknum, um flutning á Landhelgisgæslunni suður á nes, sem hefur aldrei verið rædd í nefnd og hefur ekki fengist rædd. Það er merkilegt. Það er líka merkilegt að tillagan sem var lögð fram í haust skuli vera rædd núna á síðustu metrunum sem þýðir náttúrlega að hún fær örugglega ekki efnislega umræðu í þingnefnd og dagar uppi. Það hefði aldeilis verið munur að hafa stjórnarþingmennina með á þeirri tillögu til að gefa henni enn meira vægi. Mér finnst það mjög ámælisvert af þeim þingmönnum sem búa á Suðurnesjum og eru í stjórnarliðinu að hafa ekki tekið þátt í þessu vegna þess að ef við stöndum sameinuð þá gengur miklu betur og miklu meiri líkur á því að við náum árangri í að bæta ástandið.

Ég vona að málið fái efnislega umræðu og gott brautargengi en ég efast stórlega um að það verði á þessu þingi.