144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

638. mál
[20:52]
Horfa

Geir Jón Þórisson (S):

Herra forseti. Nokkuð merk þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram og langar mig aðeins að fara í gegnum hana í ljósi reynslunnar sem ég hef af þeim málum sem hér er tæpt á.

Það er alveg ljóst að í langan tíma hefur lögreglan sjálf kallaði eftir mjög virku eftirliti með starfsemi sinni. Ég þekki það af eigin raun að borgarar hafa viljað koma með kvartanir yfir störfum lögreglunnar og oft hefur línan ekki verið ljós, hvort um kvörtun eða kæru sé að ræða. Það er ljóst, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni, að þarna er dálítið óljóst hvernig fólk á að bera sig að og hefur það oft komið fyrir að maður hefur þurft að leiðbeina fólki inn á réttar brautir. Ég tel því, og veit að lögreglumenn almennt eru sammála því, að koma þurfi upp sjálfstæðu eftirliti með starfsemi lögreglunnar og framkvæmd lögreglustarfans að öllu leyti.

Það kemur fram í greinargerðinni að ríkissaksóknari hafi ritað innanríkisráðherra bréf og þar lýsir hann mikilvægi þess að komið verði á virkara eftirliti með störfum lögreglunnar og endurbótum á fyrirkomulagi málsmeðferðar þegar borgarar telja að lögreglan hafi ekki fylgt réttum reglum. Það er til hagsbóta, bæði fyrir borgarana og lögreglu, að skýrar línur séu í því sambandi.

Lögreglulið í nágrannalöndum okkar, sem lögreglan á Íslandi hefur haft mikið samstarf við, Danmörku, Noregi og Svíþjóð, hafa tekið upp slíkar eftirlitsstofnanir, en það kemur fram í greinargerðinni að traustið hafi ekki verið sem skyldi vegna þess að þær eftirlitsstofnanir hafa kannski að meira eða minna leyti tilheyrt eða komið innan úr lögreglunni.

Ég tel að það sem fram kemur í þingsályktunartillögunni um að það verði sjálfstæði eftirlitsstofnun verði mun betra en nú þekkist, að trúnaður og traust verði á því eftirliti. Það er alveg ljóst að það er enginn formlegur vettvangur þar sem borgarar geta borið fram kvartanir sínar um starfshætti og starfsemi lögreglunnar. Það er bagalegt því að nauðsynlegt er fyrir lögregluna að vita ef borgarar eru ósáttir eða vilja bera fram kvörtun yfir störfum lögreglunnar, bæði þarf lögreglan að læra af því sem miður hefur farið og ekki síður að geta útskýrt og bent fólki á hvað varð til þess að framkvæma þurfti á þann hátt sem borgarinn er ósáttur við.

Í flestöllum tilfellum hefur maður getað leyst vel úr því, en vettvangurinn þarf að vera mjög skýr. Ég tek því undir þingsályktunartillöguna um að þessi eftirlitsstofnun verði undir Alþingi. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt.

Lögreglumenn hafa í langan tíma bent á að umræðan í þjóðfélaginu um starfsemi hennar byggist oft á því að lögreglan sjálf hefur ekki haft það eftirlit með ýmsum þeim framkvæmdum lögreglustarfans sem nauðsynlegt er, þótt þess sé getið í lögum. Það helgast kannski af því að sú stofnun sem á að hafa eftirlit með störfum lögreglunnar er ekki í stakk búin hvað varðar starfsfólk eða fjárhagslega.

Lögreglan vill hafa fullkomið traust í samfélagi sínu og að það sem hún framkvæmir, það sem hún þarf að vinna eftir sé gert rétt. Lögreglumenn eru eins og aðrir menn, þeir gera mistök. Oftast nær er hægt að leiðrétta þau mistök, en númer eitt, tvö og þrjú er að læra af mistökunum.

Mér finnst þau atriði sem tilgreind eru, þessi fimm atriði, ríma mjög vel við það sem við sem höfum starfað í lögreglunni lengi höfum oft velt fyrir okkur, ég hef starfað í lögreglunni í tæp 37 ár og þarf ekki að endurtaka það. Varðandi 5. liðinn, um ákæruvald vegna meiri háttar brota, er það alla vega álit mitt að ekki sé rétt að færa ákæruvaldið til þessarar eftirlitsstofnunar. Mér sýnist það vera stílbrot og mundi vilja að ákæruvaldið væri hjá því ákæruvaldi sem við höfum í dag, hjá ríkissaksóknara. Það er áferðarfallegra. Það er alla vega skýrara, þannig að ákærumeðferð mála varðandi brot lögreglunnar sé ekki tekin úr sambandi eða slitin frá öðru ákæruvaldi.

Ég legg til að þessi þingsályktunartillaga fái góða málsmeðferð í þinginu, því að það er öllum nauðsynlegt að gagnkvæmt traust ríki á milli lögreglunnar og borgaranna.

Lögreglan hefur mikil völd. Hún er númer eitt þjónustuaðili, þjónustustofnun fyrir borgarana, og hefur oftar en ekki orðið fyrir ýmsu að ósekju, vegna þess að lögreglan á oft erfitt með að verja hendur sínar. Hún á erfitt með og getur ekki tjáð sig opinberlega um einstök málsatvik. Því þarf lögreglan oft og tíðum að sitja undir því sem kemur fram í opinberri umræðu. Svona eftirlitsstofnun mundi geta tekið á hverju máli fyrir sig, afgreitt það gagnvart þeim sem hefur orðið fyrir því sem hann telur að sé kvörtunar virði og vill fá svör við.

Eins og ég sagði áður hefur oft verið erfitt að finna bilið á milli almennrar kvörtunar og kæru og það var oft erfitt í starfi að þurfa að leiðbeina fólki á þann hátt að það ætti frekar að kæra en að kvarta þegar samstarfsfélagar áttu í hlut. Frammi fyrir því þurfti maður að standa vegna þess að lögin eru skýr um það að ef menn brjóta af sér í starfi er það kæruefni en ekki umkvörtunarefni.

Mér finnst þessi þingsályktunartillaga taka nokkuð vel á öllum þeim atriðum og vænti þess að hún fái góða málsmeðferð í þinginu.