144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

efling brothættra byggða og byggðafesta veiðiheimilda.

588. mál
[21:17]
Horfa

Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Umræðan um veiðigjöldin er alltaf í þessu samhengi. Ég hef ekki litið á veiðigjöldin sem sérstakan landsbyggðarskatt eins og ég hef heyrt suma hv. þingmenn tala um. Ég tel að veiðigjöldin eigi að renna að stærstum hluta í sameiginlegan sjóð landsmanna sem er síðan útdeilt úr í gegnum fjárlög til uppbyggingar samfélagsins, innviðanna, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og samgöngukerfisins. Hv. þingmaður veit að ekki veitir af fjármunum til að styrkja samgöngur við Eyjar, þá í Landeyjahöfn og með nýjum Herjólfi. Allt þetta þarf auðvitað að fara í gegnum ríkissjóð til útdeilingar. Ekkert lítið sjávarþorp byggir eitt upp innviðina, vegakerfi og eigin heilbrigðisstofnanir eða menntastofnanir. Við gerum það í gegnum sameiginlegan sjóð okkar landsmanna, ríkissjóð.

Í frumvarpi sem fyrri ríkisstjórn lagði fram var gert ráð fyrir að það yrði vaxandi leigupottur þar sem ríkið leigði út aflaheimildir. Það var til að auka möguleika á nýliðun og opna lokað kvótakerfi. Þar var gert ráð fyrir að hluti af þeim tekjum sem kæmi inn vegna þessa leigupotts ríkisins rynni til sveitarfélaganna. Ég er alveg sammála því að það eigi að útfæra og finna leið eins og var gert í því frumvarpi til þess að sveitarfélögin njóti líka ávaxta þess og fái hluta arðsins af sameiginlegri auðlind til að byggja upp (Forseti hringir.) innviði sveitarfélagsins.