144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

efling brothættra byggða og byggðafesta veiðiheimilda.

588. mál
[21:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls í þessu ágæta máli sem félagar mínir hér í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði standa að, sem er tillaga til þingsályktunar um eflingu brothættra byggða og byggðafestu veiðiheimilda. Kannski er löngu tímabært að festa veiðiheimildir eins og við höfum orðið svo áþreifanlega vör við sem komum úr sjávarbyggðum þar sem kvótinn hefur farið í einu vetfangi og stoðum kippt undan samfélagi. Þá er það kannski eitt af því sem við þurfum að bregðast við hér á þingi ef við teljum að byggð eigi að vera í öllu landinu. Þetta er ein aðferð til þess, þ.e. festa veiðiheimildir við byggðirnar.

Hér er lagt til að sérstök aðgerðaáætlun verði til, þ.e. samþætt áætlun um byggðamál hjá hinu opinbera og gert verði ráð fyrir að hún verði lögð hér fram í fyrsta sinn næsta haust.

Við þekkjum auðvitað þá einhæfni atvinnulífs sem gjarnan fylgir litlum sjávarplássum. Þess vegna er það oft og tíðum mikil blóðtaka sem átt hefur sér stað á slíkum stöðum. Þetta verkefni var sett af stað árið 2012 á Raufarhöfn, en þar byrjaði það. Það hefur sýnt sig, þótt hægt fari, að það gengur ágætlega og hefur lyft andanum svolítið hjá íbúum og komið í veg fyrir að byggðin hreinlega leggist af.

Síðan hafa bæst inn í verkefnið fleiri sveitarfélög, Bíldudalur, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur komu inn í þetta verkefni, Brothættar byggðir, árin 2013 og 2014, og var þá fé aukið í þetta til handa Byggðastofnun. Síðan höfum við hér á Alþingi barist fyrir því í tengslum við fjárlagagerð núverandi ríkisstjórnar að auka fé fremur en draga úr því til handa stofnuninni sem og að bæta í þann kvóta sem er til úthlutunar. Hér kom fram fyrir ekki svo löngu þegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem flutti þetta mál, átti orðastað við hæstv. sjávarútvegsráðherra um þann pott sem hljóðar upp á 5,3% og við teljum mörg hver vera of lítinn til að mæta þessu. Því hefur verið talað um það jafnvel að til ráðstöfunar verði sérstakur pottur hjá Byggðastofnun, mun meiri en hann er ef hann á að koma byggðarlögum að gagni. Við sjáum til dæmis á Djúpavogi, þar sem þúsundir tonna hverfa úr sveitarfélaginu og byggðakvóti upp á örfá hundruð tonn kemur í staðinn, þá hefur það auðvitað ekkert að segja þegar að auki er búið að tæma vinnsluna í landi. Því þarf eitthvað annað að koma til. Það er auðvitað margt annað sem getur komið til, þ.e. ekki endilega bara að festa veiðiheimildir, heldur eru margs konar aðrir möguleikar sem sveitarfélögin geta staðið frammi fyrir sem geta styrkt byggð og eru þeim íbúum til hagsbóta sem þar búa. Okkur ber í því ljósi þegar við erum að biðja heimamenn um að koma með tillögur — af því að þetta er tilraunaverkefni sem er náttúrlega búið að sanna sig byggðist á því að draga íbúana að borðinu og fá þá til að sjá fyrir sér hvernig þeir sæju samfélagið. Forsvarsmenn Djúpavogshrepps hafa til dæmis komið að máli við okkur. Í ljósi þeirrar stöðu sem þar er hafa þeir lagt fram ákveðnar hugmyndir fyrir okkur þingmenn kjördæmisins til þess að koma þeim áfram þar sem áhugi er fyrir hendi til að efla og viðhalda byggðinni og styðja við það sem þar er fyrir í ljósi þess brests sem þar varð þegar kvótinn fór. Og þá er að sjá hvað þeir sem nú ráða för vilja gera til þess að styðja við það. Ég held að brýnt sé að hlusta á það þegar komið er með afmarkaðar hugmyndir sem íbúarnir telja að styrki samfélagið, það er eitt af því sem mér finnst að okkur beri að horfa til og skoða með mjög svo opnum huga.

Það eru í sjálfu sér um fleiri byggðir að ræða sem hafa verið að takast á við aflabrest. Við höfum fjallað töluvert um Grímsey og hvað beri að gera þar. Sem betur fer erum við komin á þann stað að verið er að vinna í þeim málum þverpólitískt í von um að lausn finnist á vanda þeirra, því að ekki held ég að nokkur maður vilji að byggð leggist af þar frekar en annars staðar. Ég held að við þurfum líka að vera tilbúin að hafa opinn huga gagnvart því öllu. Þó að við höfum verið að máta okkur við ákveðnar leiðir, meðal annars í tengslum við þetta verkefni, Brothættar byggðir, þá getur þurft að taka mið af þeim sveitarfélögum sem við eiga hverju sinni. Það er ekki alltaf í tengslum við fiskinn.

Það er í sjálfu sér kannski áhugavert um leið og það er ekki gott að sveitarfélög skuli vera að ráða sér verkefnisstjóra vegna þess að byggðirnar eru brothættar, en að sama skapi sýnir það kannski áhuga fólks á því að halda byggðarlagi sínu í byggð. Og bæði Skaftárhreppur og Austurland hafa ráðið sér sérstaka verkefnisstjóra núna til tiltekins tíma til að reyna að hafa þessi samskipti og tengsl við Byggðastofnun og líka til að fylgja eftir þeim hugmyndum sem kvikna hjá íbúum til að styrkja og auka fjölbreytni í byggðarlögunum. Það er kannski það sem er svo mikilvægt þar sem atvinnuvegur hefur verið einhæfur. Ljóst er að eins og hér var rakið áðan og í tillögunni er tekið til orða: „aðstæðubundinni viðlagahjálp“, þá það er ekki eitthvað sem við getum reist byggðarlögin á. Þess vegna er svo mikilvægt að fjölga tækifærum í fjölbreyttara atvinnulífi, ekki einungis ferðaþjónustunni sem þó er mjög mikilvæg, heldur í svo mörgu öðru sem kannski hentar hverju og einu byggðarlagi. Þó að flestir horfi til ferðaþjónustunnar á þessu augnabliki verðum við líka að gæta okkar að setja ekki öll eggin í sömu körfu hvað það varðar. En það er vissulega hægt að byggja á þeim styrkleikum sem hvert svæði hefur þrátt fyrir að það sé kannski innan þess geira.

Í tillögunni er rakið að treysta eigi grundvöll byggða og bæta hag íbúa, og mér er umhugað um það. Þar er talað um menntun, fjar- og dreifnám, fjárfestingu í innviðum o.s.frv. Ég hef miklar áhyggjur af því að við stöndum ekki vel að vígi með þann menntamálaráðherra sem er við völd akkúrat núna. Ég hef miklar áhyggjur af hinum dreifðu byggðum þegar kemur að menntunartækifærum. Ég tel ráðherra vera að skerða þau með þeim aðgerðum sem hann hyggst fara í og hefur verið að leggja fram í gegnum fjárlög fyrst og fremst, því að ekki er það í gegnum umræðu hér á þingi, og fækkar í rauninni kostum fólks til að sækja sér bæði fjar- og dreifnám. Það er auðvitað ekki til þess fallið að styrkja þær dreifðu byggðir sem þurfa svo mjög á því að halda, flestar hverjar, að hækka menntunarstig sitt. Þegar uppi eru áform um að jafnvel sameina skóla í einu kjördæmi sem er þá himinn og haf á milli, til dæmis Ísafjörð og Sauðárkrók eða eitthvað slíkt, þá er það auðvitað ekki til þess fallið að íbúar á Vestfjörðum njóti góðs af því og geti aukið sitt menntunarstig til að nýta til frumkvöðlastarfsemi eða annars slíks sem gæti styrkt byggðirnar og orðið til þess að hún hreinlega haldist á þeim slóðum.