144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

efling brothættra byggða og byggðafesta veiðiheimilda.

588. mál
[21:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis leggja nokkur orð í belg um þessa tillögu. Ég er reyndar einn af flutningsmönnum þannig að ekki þarf að fara í grafgötur um afstöðu mína. Ég tel að vinnan með veikustu eða brothættustu byggðunum, sem þróast hefur undanfarin þrjú ár í gegnum sameiginlegt frumkvæði Byggðastofnunar og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins á sínum tíma, sé með merkari nýbreytni á þessu sviði sem við höfum séð í nokkuð langan tíma. Um er að ræða nýja nálgun, nýsköpun getum við kallað það, í aðferðafræði á sviði byggðamála og tengist umræðu sem, ég hygg að ekki sé á neinn hallað þótt nefndur sé til sögunnar fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, prófessor Þóroddur Bjarnason var að mörgu leyti upphafsmaður að, þ.e. að fara að tala um landsbyggðirnar í fleirtölu til að vekja athygli á og leggja til grundvallar umræðunni þann fjölbreytileika sem þar er við að eiga. Hluti af þeim fjölbreytileika er sú staðreynd að sumar byggðir eru mjög veikar og brothættar langt umfram aðrar og það kallar á sértæka nálgun, sértæka vinnu þeim til stuðnings.

Það er eiginlega lærdómurinn að hinar almennu aðgerðir í formi vaxtarsamninga og byggðaáætlunar og almennra ráðstafanna sem menn tengja gjarnan byggðamálum, góðar sem þær eru duga þær einfaldlega ekki eða gagnast ekki allra minnstu byggðunum vegna þess að staðan þar er í raun orðin of veik til að menn geti nýtt sér þau úrræði til fulls. Það þarf sértækar ráðstafanir. Það er það sem er fólgið í þessari hugmyndafræði plús það að hún hefur frá byrjun byggt á því að vinna þetta með íbúunum og virkja þá sjálfa til samstarfs um sín mál. Þetta verkefni hefur þegar gefið góða raun. Það er búið að gera nokkra úttekt á því hvernig það hefur reynst á fyrstu metrunum og þær niðurstöður eru jákvæðar.

Eins og þegar hefur komið fram fór þetta af stað á Raufarhöfn, einkum og sér í lagi vegna þeirra mjög svo erfiðu aðstæðna sem þar voru, og eru auðvitað sumpart uppi áfram, eftir eiginlega fordæmalausa þróun á seinni áratugum til hins verra í málefnum staðarins undanfarin eða undangengin ár, sem m.a. og ekki síst tengdust nánast algjöru brotthvarfi veiðiheimilda úr byggðarlaginu. Það er að sjálfsögðu eitt hryggjarstykkið í þessari tillögu að leita leiða til að skapa sjávarbyggðunum aftur einhvern grundvöll með verulega aukinni byggðafestu veiðiheimilda.

Eins og hér hefur komið fram eru ekki allar brothættar byggðir við sjávarsíðuna þótt þær séu það margar og staðan víða hvað veikust í litlum sjávarbyggðum með einhæft atvinnulíf tengt sjávarútegi og er yfirleitt sammerkt þeim erfiðleikum að veiðiheimildir hafa horfið á braut.

Síðan eru önnur svæði. Þar er þegar til í verkefninu Skaftárhreppur, sem eðli málsins samkvæmt byggir ekki mikið á sjávarútvegi með sína hafnlausu strönd. Fleiri byggðarlög, þar sem landbúnaður, ferðaþjónusta eða önnur starfsemi er mun meira ráðandi en sjávarútvegur, hafa ýmist sótt um aðild eða eru að hugleiða aðild að verkefninu. Stjórnvöld þurfa þá auðvitað að hafa eitthvað til að leggja á borðið með sér. Það vekur athygli á því að mjög mikilvægt er að á það reyni núna í vor hvort vilji er til þess á Alþingi að auka svigrúm Byggðastofnunar í þeim efnum og færa til hennar meiri veiðiheimildir, þannig að hún hafi möguleika á að bregðast við aðstæðum á fleiri stöðum eða eftir atvikum gera enn betur þar sem hún hefur þegar farið inn með einhverjar veiðiheimildir á þessum grundvelli. Sá er meðal annars munurinn á að þarna er hægt að festa veiðiheimildir til nokkurra ára í staðinn fyrir árlega úthlutun á minni háttar hefðbundnum byggðakvóta sem er í grundvallaratriðum miklu öflugri aðgerð, að skapa festu sem hægt er að byggja á. Á það þarf að reyna.

Sömuleiðis þarf, eins og tillagan gengur út á, að kortleggja möguleikana til að beita sambærilegum úrræðum í byggðum þar sem önnur meðul þurfa að koma til og duga betur en byggðafesta veiðiheimilda, svo sem eins og stuðningur við þróun í landbúnaði eða ferðaþjónustu eða matvælaiðnaði eða öðru slíku. Að sjálfsögðu er hægt að hugsa sér stuðninginn þá í formi annarra hluta. Við getum nefnt þar nýliðunarstuðning í landbúnaði, menn fái sérstakan stuðning við kynslóðaskipti eða nýliðun í landbúnaði, við búháttabreytingar, einhvers konar þróunarfé og þar fram eftir götunum.

Það má spyrja: Hvers vegna að horfa sérstaklega á brothættustu og veikustu byggðirnar? Auðvitað er það aðeins ein nálgun af mörgum sem möguleg er í sambandi við byggðamál. En það er stundum sagt að engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkurinn og það á að mörgu leyti vel við um byggðamál. Það er þannig að ef byggð rofnar á einhverju svæði, ef það slitnar hlekkur í byggðakeðjunni t.d. með ströndinni eða þar sem byggð er, þá myndast þar eyða, þar myndast jaðar og slíkir jaðrar hafa tilhneigingu til að færast út. Þá veikjast aðliggjandi svæði. Það er því ekki verri hugsun en hver önnur að horfa akkúrat á þetta frá þeim enda og reyna að græða upp rofabörðin og koma í veg fyrir að það myndist byggðalegir jaðrar.

Allt önnur nálgun, og auðvitað gild í sjálfu sér, er að horfa á þetta frá hinum endanum og leggja áherslu á mikilvægi vaxtarsvæða og mikilvægra þjónustukjarna í landshlutunum. Að sjálfsögðu er líka rétt að þeir þurfa að vera til staðar. Þangað þurfa menn að geta sótt nauðsynlega sérhæfðari og meiri þjónustu o.s.frv. En ætli þetta sé ekki eins og stundum áður, að þetta sé gott hvað með öðru. Ég held að það sé hárrétt að beina sjónum í byggðarlegu tilliti ekki síður að þeim byggðum og vinna með þeim en að einblína einungis á það að einhverjir örfáir staðir utan suðvesturhornsins eigi sér möguleika.

Vinnan með heimamönnum er að sjálfsögðu mjög mikilvæg. Ég hef sótt mörg íbúaþing á undanförnum missirum, þar á meðal á Raufarhöfn, og líka í tengslum við sóknaráætlanir landshlutanna. Það var hugmyndafræði af nákvæmlega sama meiði, að vinna að framfaramálum byggðanna og landshlutanna á þeirra forsendum. Ekki veitir af að taka á því núna í ljósi þess að því miður hefur núverandi ríkisstjórn gert þau, að mínu mati afdrifaríku mistök að nánast setja á ís sóknaráætlanir landshlutanna. Það getur rétt heitið svo að það sé í öndunarvél núna milli ára með einhverjum 100 milljónum sem eru með harmkvælum grátin hér út við fjárlagaafgreiðsluna tvö ár í röð, í staðinn fyrir að lagt var upp með 400 milljónir í byrjun og meiningin að það mundi aukast í 1 milljarð til 1.200 milljónir á ári. Það hefði orðið að umtalsverðu fé sem yrði ráðstafað á forsendum heimamanna á grundvelli vinnu á svæðunum þar sem menn hefðu forgangsraðað og sett í öndvegi tiltekin framfaramál og ákveðið sjálfir að það fjármagn sem þeir hefðu úr að spila skyldi ganga til þeirra verkefna.

Í ljósi þess hversu vinnan á grundvelli sóknaráætlana er veik og nánast í lamasessi vegna fjárskorts er enn þá meiri ástæða til að leggja þá að minnsta kosti eitthvað, þótt ekki sé nema það sem hefur verið gert undanfarin ár, 50 milljónir til reksturs verkefnisins og síðan einhverjar veiðiheimildir og önnur úrræði sem stjórnvöld hafi til að leggja á borðið með sér í vinnunni með heimamönnum á grundvelli verkefnanna um brothættar byggðir.

Því miður höfum við verið að horfa upp á áföll, veruleg áföll, ekki síst tengd framsali veiðiheimilda í kvótakerfinu. Er þar nærtækt að minnast, eins og hér var nefnt, þegar eitt fyrirtæki tekur með einni ákvörðun í raun ákvörðun um að greiða þremur byggðum landsins þungt högg og nánast rústa þeim sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða sem þar voru til staðar, þ.e. Vísir í Grindavík sem ákveður á einu bretti að leggja af fiskvinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík og flytja allar veiðiheimildirnar suður, í burtu. Í að minnsta kosti tveimur tilvikum af þremur fóru þar í burtu veiðiheimildir viðkomandi byggða, þ.e. á Djúpavogi þar sem voru saman safnaðar veiðiheimildir Djúpavogs og Breiðdalsvíkur og á Húsavík veiðiheimildir frá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur sem útgerð heimamanna og vinnsla hafði byggt upp um áratugi, á einni nóttu hverfa þær eins og dögg fyrir sólu.

Vandamál Grímseyjar hafa sömuleiðis verið nefnd. Ég óttast að jafnvel fleiri staði mætti nefna þar sem staðan er brothætt og menn hafa ekki enn fengið stuðning af því tagi sem verkefnið Brothættar byggðir á og getur gert. Það er því ærin ástæða til (Forseti hringir.) að samþykkja þessa tillögu og fylgja því eftir að það verði veiðiheimildir til ráðstöfunar til þess að framkvæma málið.