144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Forfeður okkar viðhéldu ýmissi stefnu sem í dag teldist til villimennsku, svo sem opinberri kynþáttahyggju og löglegu þrælahaldi. Ég hygg að komandi kynslóðir munu líta til okkar og líða eins en af öðrum ástæðum. Nýlega leituðu til mín þrír einstaklingar sem standa frammi fyrir því að verða sendir úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þeir bíða enn eftir úrskurði Hæstaréttar, en jafnvel ef vel fer þar eiga þeir eftir erfiða baráttu við efnismeðferð sinna mála og fátt gefur þeim ástæðu til bjartsýni frekar en öðrum í þeirra stöðu. Einn þeirra er rafvirki, annar framkvæmdastjóri og sá þriðji kennari. Allir eiga þeir það sameiginlegt að vilja einfaldlega vera hérna, lifa og vinna. Athugið að þeir vinna ekki, við höfum einhvern veginn komist að þeirri niðurstöðu að fólksfjölgun sé neikvæð fyrir vinnumarkaðinn, sem er auðvitað þvæla.

Hugmyndir til úrbóta á lögum um útlendinga hafa komið fram og munu koma fram, en samt látum við alltaf eins og við getum í raun ekkert gert fyrir flóttamenn, þeir séu svo margir, eða hvað það nú er. Jú, virðulegi forseti, við getum leyft þeim að vera hérna og vinna, ekki öllum en þó nokkrum. Það heyrir til algerra undantekninga að við tökum mál þeirra til efnismeðferðar og hvað þá að við segjum einfaldlega já að lokinni efnismeðferð.

Virðulegi forseti. Hagkerfi eru lítið annað en samansafn af fólki, því meira af fólki sem hér býr við frelsi og framtíð þeim mun betra fyrir okkur öll. Þegar við spörum í málefnum innflytjenda og flóttamanna þá spörum við í mikilvægustu lífsgæðum sem lifandi fólk getur notið, lífsgæðum á borð við frelsi og framtíð. Mikið af hvoru tveggja gætu krónur keypt, meira að segja íslenskar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.