144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vitna í inngangsorð þáttastjórnanda Sprengisands síðastliðið sunnudag þar sem hann vísar til auglýsingar Vinnumálastofnunar: „Boðin er aðstoð við þá Íslendinga sem vilja fara frá þeirri óáran sem hér ríkir. Fólk er hvatt til að leita sér að betra samfélagi, samfélagi þar sem ríkir meira jafnvægi. Við erum að missa frá okkur stóran og glæstan hóp fólks sem nennir þessu rugli ekki lengur.“ Vissulega er dökk mynd dregin upp.

Virðulegi forseti. Ég hef áður rætt hér um lífskjör og hagtölur, hvernig við förum með og túlkum tölulegar staðreyndir, má kalla hagvísa. Á vef Hagstofunnar kemur meðal annars fram að landsmönnum hafi fjölgað um 700 nú á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og þar af fluttust 290 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Það er í takt við síðustu tvö árin þar sem okkur hefur fjölgað, bæði fæddir umfram dána og aðfluttir umfram brottflutta, um tæplega 8.000 manns.

Það er vísbending um að það sé eitthvað hingað að sækja. Hér er atvinnu að hafa og það sem meira er hér er meira til skiptanna sem birtist í sókn vinnandi stétta fyrir bættum kjörum.

Þáttastjórnandinn kallaði eftir því að við hlustuðum, honum til hróss tókst það. Hér ríkir stöðugleiki sem við viljum viðhalda. Hér ríkir jöfnuður og hér er meira til skiptanna og því tækifæri til að bæta lífskjörin og auka jöfnuð enn frekar.

Hitt er svo annað mál að vonandi hefur fólk eftir sem áður, og það með fullri virðingu fyrir öllum þeim aðstæðum sem eru uppi, og ástæðum fyrir því að fara utan, tækifæri til þess að sækja okkur þekkingu og atvinnu út fyrir landsteinana.