144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það var ansi fróðleg skýrsla sem okkur var kynnt í atvinnuveganefnd í morgun sem sýndi tilflutning aflaheimilda milli landshluta frá árinu 1993 til 2013 og hvernig botnfiskvinnsla hefur þróast á þessum árum. Þó að maður hafi talið sig hafa fylgst nokkuð vel með þessum málum í gegnum árin, búandi úti á landi í sjávarplássi, þá var manni brugðið að sjá þær gífurlegu breytingar sem hafa orðið á þessum árum og samþjöppun aflaheimilda með tilheyrandi röskun í ákveðnum byggðum.

Vissulega hefur þetta þýtt styrkingu byggða á ákveðnum svæðum hér á suðvesturhorninu, í Eyjafirði og á ákveðnum stöðum á Austfjörðum þegar uppsjávarfiskurinn kom til, en þetta hefur líka þýtt gífurlegan missi af svæðinu, fólksflutninga af þessum svæðum og tap á tekjum og tilheyrandi. Menn reyna að réttlæta þetta með því að segja að þetta sé bara tæknin, hagkvæmnin og tæknin, en þetta er ekki eingöngu það. Þetta er stýring stjórnvalda með óheftu framsali í því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. Ég segi: Er ekki einhver möguleiki á að arðsemi og hagkvæmni fari saman? Jú, ég tel það vera.

Núna eru örfáir einstaklingar, stór útgerðarfyrirtæki, sem hirða obbann af arðinum til sín. Og er víst að þeir deili honum aftur út til þjóðarinnar með réttlátum hætti? Nei, ég tel það ekki vera. Þegar þessi arður var á miklu fleiri höndum voru miklu meiri líkur til þess að hann færi út í samfélagið. Nú ætla (Forseti hringir.) menn að leika sama leikinn með makrílfrumvarpinu. Og taka tvö: (Forseti hringir.) Ég segi nei takk.