144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja þingheimi frá málþingi um öldrun og heilsu sem ég fór á í Höfn í Hornafirði í síðustu viku, merkilegt og frábært framtak sem sveitarstjórnarmenn á Höfn tóku sér fyrir hendur og fengu fjölmarga merkilega fyrirlesara á svæðið. Þar var meðal annars hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sem ræddi um stöðuna í öldrunarmálum á landinu og fór yfir það af mikilli kostgæfni. Þar var einnig Sólfríður Guðmundsdóttir, frá Silkistefnu, Heilsuhúsi, sem ræddi um það að aldraðir þurfi að hafa val, val um þjónustu frá heilsuleysi til heilbrigðis, að byggja eigi á styrkleika hvers og eins, auka lífsgæði með göngu og samfélagi í náttúru landsins til heilsu og betra lífs.

Þar var líka Janus Guðlaugsson, fyrrverandi fótboltakappi, með (Gripið fram í.) magnaða ræðu og ræddi um farsæla öldrun með markvissri hreyfingu til að bæta eigin getu til að sinna athöfnum daglegs lífs fram eftir öllum aldri. Það var líka mjög merkilegt. Hann hefur verið með rannsóknir í gangi, hefur haft 120 manns í tveimur hópum og rannsakað þá og kynnti niðurstöður á fundinum, það var mjög merkilegt. Þarna var líka Jón Eyjólfur Jónsson öldrunarlæknir sem ræddi um eigin ábyrgð á lífi okkar og fjölskyldu okkar sem á að taka þátt í daglegum þörfum eldri borgara, ekki alltaf heimta að kerfið standi á bak við okkur.

Þau hvöttu hæstv. heilbrigðisráðherra og þingheim til að fara með minni peninga í uppbyggingu dvalarheimila með steinsteypu. Það ætti að byggja á hraustleika hjá öldruðu fólki til betra lífs. Ég get tekið undir svo margt sem var sagt á þessari ráðstefnu, margt mjög gott, og þakka Hornfirðingum fyrir að hafa vakið máls á þessu þarfa máli. Ég segi það enn og aftur að við, ágætir þingmenn í þessum sal, verðum dæmd af því hvernig við búum öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.